Heimildir ekki veittar af núverandi stjórn

Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frá síðasta hausti hefur sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytið veitt tvær undanþágur vegna flutnings hergagna en tveimur umsóknum hefur verið hafnað. Undanþága var annars vegar veitt vegna flutnings hergagna til Sádi Arabíu en í hins vegar var um að ræða flutning fyrir aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) á öðrum búnaði en vopnum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vefsíðu ráðuneytisins. Þar segir ennfremur að slíkar undanþágur hafi að minnsta kosti verið veittar frá árinu 2008 en ekki hefur verið viðhaft samráð við ráðuneytið fyrr en síðastliðið haust þegar erlent flugfélag óskaði eftir heimild til þess að flytja táragas til Venesúela um íslenskt yfirráðasvæði sem var hafnað.

Fyrr á síðasta ári hafi heimild til þess að flytja hergögn til Sádi Arabíu einnig verið hafnað. Ennfremur kemur fram að engar undanþágur hafi verið veittar til flutninga á árásarvopnum  með íslenskum flugrekendum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Samgöngustofa fari með framkvæmda reglugerðar í þessum efnum og hafi veitt slíkar heimildir undanfarin ár.

Unnið að endurskoðun reglugerðar

Ráðuneytið innleiddi skýrara verklag í kjölfarið og rannsakar nú hverja umsókn í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Skal Samgöngustofa nú ávallt senda ráðuneytinu umsóknir um undanþágur. Tilgangur nýs verklags sé að tryggja að vopnaflutningar með íslenskum loftförum fari ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í þessum efnum.

Mikilvægt sé að skýr umgjörð sé um afgreiðslu slíkra undanþága í ljósi þess að starfsemi íslenskra flugrekenda teygi sig um allan heim. Unnið sé að endurskoðun reglugerðarinnar um flutning hergagna með loftförum í samráði við utanríkisráðuneytið. Hugsanlega sé rétt að fela utanríkisráðuneytinu ábyrgð á framkvæmd þeirra vegna eðlis þeirra.

Stefnt sé að því að setja nýja reglugerð í opið samráð á samráðsgátt stjórnarráðsins á næstu vikum. Frekari undanþágur verði ekki veittar fyrr en ný reglugerð hefur verið sett og verklag innleitt nema í undantekningartilvikum og ætíð í samráði við utanríkisráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert