Boðar baráttu um Ísland næstu árin

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Það má vel segja að næstu ár verði barátta um Ísland og stór liður í henni er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á sameiginlegum auðlindum, í stjórnarskrá, og innheimta sanngjarna rentu.“ Þetta sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í stefnuræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar á lokaathöfn fundarins.

„Samhliða þessari gríðarlegu samþjöppun auðs hafa þeir eignamestu hreiðrað um sig á öllum sviðum samfélagsins samtímis. Í útgerð, bönkum, orkufyrirtækjum, tryggingafélögum, dagblöðum og nú síðast á húsnæðismarkaði.“

Logi sagði að skoða þyrfti róttækar breytingar á skattkerfinu til að hindra að ágóðinn af tækniþróun komandi ára yrði ekki allur eftir hjá fyrirtækjunum. Slíkt myndi leiða til þess að stjórnvöld réðu ekki við að halda upp öflugu velferðarkerfi og bilið milli þeirra efnameiri og snauðu, næði áður óþekktum hæðum.

Ábyrgðinni varpað yfir á stéttafélög

Logi ræddi ójöfnuð og sagði að ríkisstjórnin skilaði auðu þegar kæmi að þeim verst settu. Ekki væri staðið við margítrekuð loforð um að styrkja innviði og almannaþjónustu. Ríkisstjórnin byði hvorki upp á trúverðuga lífskjarasókn né leið til aukins félagslegs stöðugleika. 

Ábyrgðinni á hvoru tveggja er varpað yfir á stéttafélög. Það félagslega öryggi sem er talið sjálfsagt í nágrannalöndum okkar, ætlar ríkisstjórnin að nota sem skiptimynd í kjarasamningum.

Frá landsfundi Samfylkingarinnar.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Mannfjandsamleg stefna hjá systurflokki

Þá kom Logi inn á málefni flóttamanna og varpaði fram spurningu um hversu mikið Ísland ætti að leggja að mörkum til þess hluta jarðarbúa sem býr við hungur, er á flótta undan hörmungum og stríði eða í örvæntingarfullri leit eftir öryggi og betra lífi.

„Svarið er já, auðvitað og ríkt land eins og Ísland á að gera miklu betur [...] Þær fréttir berast frá nágrannalöndum okkar að setja eigi lög, sem brjóta gróflega mannréttindi á stórum hópum. Jafnvel systurflokkur okkar í Danmörku hefur boðað stefnu sem er í mörgu mannfjandsamleg. Við skulum einsetja okkur að falla aldrei í þá freistni að gefa afslátt af mannúð, í örvæntingafullri tilraun til að stækka flokkinn.“

Talaði um „asnaskap“ Vinstri-grænna

Logi sagði að þó að flestir flokkar héldu því á lofti að allir væru fæddir jafnir væri grundvallarmunur á því hvaða merkingu þeir legðu í það.

„Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið Sjálfstæðisflokknum allt of mikil völd gegnum tíðina. Í krafti 30% fylgis hefur hann setið í allt of mörgum ríkisstjórnum; þrátt fyrir að 70% þjóðarinnar hugnist hvorki viðhorf hans, né stefna,“ sagði Logi. 

Að mati Loga þurfa félagshyggjuflokkarnir að átta sig á þessu og leita allra mögulegra leiða til að vinna saman. Náist það ekki mun þeir halda áfram að vera á víxl fylgitungl Sjálfstæðisflokksins sem væri hinn raunverulegi óvinur.

Sagði hann ennfremur Samfylkinguna halda dyrunum opnum fyrir Vinstri græn þegar þau myndu átta sig á þeim „asnaskap“ sem þau hefðu „leiðst út í“ og hlaut lófatak fyrir. Vísaði hann þar til ríkisstjórnarsamstarfs VG við Sjálfstæðisflokkinn.

Frá landsfundi Samfylkingarinnar.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert