„Gríðarlegur léttir“ að sjá vélina

Björg Magnúsdóttir, sjónvarps- og útvarpskona.
Björg Magnúsdóttir, sjónvarps- og útvarpskona.

„Ég hef aldrei verið jafnfegin að sjá flugvél,“ segir sjónvarps- og útvarpskonan Björg Magnúsdóttir sem er nú á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn á leið til landsins, aðeins nokkrum tímum fyrir beina útsendingu RÚV frá úrslitakvöldi Söngvakeppni sjónvarpsstöðva sem fram fer í Laugardalshöll.

Björg hefur síðustu daga verið í skíða- og ráðstefnuferð ásamt fleiri fjölmiðlamönnum en átti að fljúga frá Búlgaríu í gær. „Ég ákvað að vera mjög tímanlega í því, fara fyrr heim en hinir, svo að ég gæti nú sofið róleg í mínu rúmi í nótt fyrir stóru stundina í kvöld,“ segir Björg skellihlæjandi í samtali við mbl.is.

Smá taugatitringur

En þegar hún kom á flugvöllinn í Sofíu í gær varð fljótt ljóst að ekkert yrði flogið til London vegna veðurs. „Ég panikkaði smá og fór á hótel í Sofíu og gisti þar í nótt.“ Hún átti svo flug til Kaupmannahafnar í morgun. Það gekk allt að óskum en svo fóru taugar Bjargar aftur að titra. „Ég sá að það byrja boð um seinkanir á fluginu til Íslands á töflunni á flugvellinum. Ég hugsaði: „Jæja, þetta á bara ekki að gerast“,“ segir hún. „Ég á bara ekki að vera hluti af þessu hugsaði ég!“

En augljóslega var það ekki málið því skömmu síðar birti til. „Ég starði á flugbrautina og svo sá ég WOW-vélina og það var gríðarlegur léttir. Það hefði verið mjög leiðinlegt að missa af þessu.“

Björg segir að ef allt hefði farið á versta veg hefði örugglega verið gripið til aðgerða hjá RÚV. „Ef ég þekki Ragnhildi Steinunni rétt þá er hún alltaf með B- og C-plan í hausnum. En það eru allir rosa glaðir að þetta mál fær farsælan endi.“

Björg var enn stödd í Kaupmannahöfn er mbl.is ræddi við hana. Hún á því flugferð til Íslands enn fyrir höndum. „Ég er bara að fara að hoppa upp í vél hér á Kastrup og beint upp í Laugardalshöll, það er bara þannig. Ég verð bara að finna einhvern sturtuklefa í höllinni, það ætti að vera lítið mál.“

Bein útsending RÚV hefst klukkan 19.45 í kvöld. Þar verða flutt þau sex lög sem komust í úrslit og fulltrúi Íslands í Eurovision í Portúgal valinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert