Stefna um einelti og áreitni í kjölfar #metoo

Elfur Logadóttir kynnti nýja stefnu Samfylkingarinnar um einelti og áreitni …
Elfur Logadóttir kynnti nýja stefnu Samfylkingarinnar um einelti og áreitni á landsfundi flokksins í dag. mbl.is/Erla María

Ný stefna Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni var kynnt á landsfundi Samfylkingarinnar í dag.

Stefnan er afrakstur þriggja manna starfshóps sem framkvæmdastjórn flokksins skipaði. Hópinn skipuðu Sólveig Ásgeirsdóttir sálfræðingur, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, formaður Ungra jafnaðarmanna og nýkjörinn ritari flokksins, og Elfur Logadóttir lögfræðingur, sem kynnti stefnuna.

Flokkurinn skapi forvörn og bregðist við

„Við viljum að Samfylkingin setji sér stefnu gegn einelti og áreitni. Við viljum að flokkurinn sýni ákveðna forvörn en bregðist líka við þegar hlutirnir gerast,“ sagði Elfur.

Þrjú skjöl koma út úr vinnunni, það er tillaga að stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni, verklag um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni og breytingatillögur á siðareglum Samfylkingarinnar.

Í inngangi stefnunnar segir að allir flokksmenn Samfylkingarinnar eigi rétt til frelsis og gagnkvæmrar virðingar. „Til stuðnings þessari stefnu leggjum við fram nýjar aðferðir sem aðstoða flokkinn að vinna í samræmi við þau skilaboð sem stefnan gefur,“ sagði Elfur.

Í máli sínu lagði hún áherslu á að verklag er að ræða, en ekki reglur. „Þetta er stór skali sem við erum að fjalla um en við viljum hafa skýrt og einfalt verklag og vonandi tekst okkur að taka til allra þessara þátta,“ sagði Elfur.

Landsfundur Samfylkingarinnar stendur yfir á Reykjavík Natura um helgina.
Landsfundur Samfylkingarinnar stendur yfir á Reykjavík Natura um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt að taka á því sem grasserar í flokknum

Verklagið felst fyrst og fremst í því að skapa félagsmönnum vettvang til þess að koma umkvörtunum um ótilhlýðilega háttsemi á framfæri, taka umkvörtunum alvarlega og setja þær í formlegan, málefnalegan farveg sem leiðir til réttlátrar niðurstöðu og að kvartendum verði veittur viðeigandi stuðningur við úrvinnslu atburða.

„Núna erum við fyrst og fremst að hugsa um að ná utan um það að flokkurinn ráði við að takast við það sem grasserar í þessum flokki eins og öllum öðrum,“ sagði Elfur.

Atkvæði um stefnuna verða greidd í lok landsfundar í dag og má fastlega gera ráð fyrir því að hún verði samþykkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert