Stjórnmálin virka ekki án radda kvenna

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Samfylkingin

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, fór yfir upphaf og farveg #metoo- byltingarinnar á sérstökum umræðufundi um málefnið sem haldinn var á landsfundi Samfylkingarinnar í dag.

Heiða Björg fór fyrir hópi kvenna sem stigu fram í nóvember undir yfirskriftinni „Í skugga valdsins“ þar sem á fimmta hundrað stjórn­mála­kon­ur sendu frá sér sam­eig­in­lega áskor­un þar sem þess var kraf­ist að karl­ar tækju ábyrgð og að stjórn­mála­flokk­ar tækju af festu á stöðu mála varðandi kyn­ferðisof­beldi og áreitni í ís­lensk­um stjórn­mál­um.

Frétt mbl.is: Krefjast þess að karlar taki ábyrgð

Heiða Björg, sem var endurkjörinn varaformaður flokksins í gær, segir að tíminn frá því að stjórnmálakonurnar stigu fram hafi verið ótrúlegur. „Þetta hefur afhjúpað hversu mikilvægt er að við ræðum opinberlega um samfélagið okkar.“

Raddir kvenna verða að heyrast svo stjórnmálin virki

Byltingin er hins vegar bara rétt að byrja og benti Heiða Björg á ýmsar staðreyndir í því samhengi. „Karlarnir okkar frábæru stýra samfélaginu á Íslandi, þeir stýra peningunum, eru meirihluti stjórnarformanna, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og lög um kynjakvóta virka ekki almennilega,“ sagði Heiða Björg og benti einnig á að konur hafa aldrei verið í meirihluta á þingi. „Það er mjög mikilvægt að raddir kvenna heyrist til jafns við karla í stjórnmálum því annars virka stjórnmálin ekki.“

Heiða Björg vonast til þess að #metoo-byltingin muni leiða til þess að hlustað verði á konur sem stíga fram. „Við getum öll lært af þessu og við erum öll að læra. Við erum að viðurkenna vandann en við getum breytt þessu og við erum að breyta. Við þurfum að varðveita breytingarnar og við berum öll ábyrgð á því.“

Landsfundur Samfylkingarinnar fer fram um helgina.
Landsfundur Samfylkingarinnar fer fram um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtt verklag og viljayfirlýsing

Ásamt því að innleiða nýtt verklag Samfylkingarinnar í meðferð um móttöku og meðferð umkvartana á sviði eineltis og áreitni hefur flokkurinn skrifað undir viljayfirlýsingu á vegum Vinnueftirlitsins um málefnið. „Það eina sem við þurfum að gera núna er að taka þetta til okkar, læra af þessu og nýta okkur það tækifæri sem metoo hefur gefið okkur til að gera betur,“ sagði Heiða Björg að lokum og uppskar mikið lófaklapp auk þess sem landsfundargestir risu úr sætum.

Frétt mbl.is: Stefna um einelti og áreitni í kjölfar #metoo

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar …
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem nú stendur yfir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is