Sunna Ósk verðlaunuð fyrir umfjöllun ársins

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður á ritstjórn mbl.is, hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins á blaðamannaverðlaununum sem voru veitt við hátíðlega athöfn við Hörpu í dag.

Sunna Ósk var tilnefnd í flokknum umfjöllun ársins fyr­ir að reifa skil­merki­lega hvernig raf­orkuþurrð til ná­inn­ar framtíðar kall­ar á ákv­arðanir um hvort draga þurfi úr notk­un henn­ar eða virkja meira og ólík sjón­ar­mið þar um. Mátt­ur­inn eða dýrðin, um­fjöll­un Sunnu, birt­ist bæði á mbl.is og í Morg­un­blaðinu.

Frétt mbl.is: Morgunblaðið og mbl.is tilnefnd

„Sunna varpaði skýru ljósi á þá stöðu sem uppi er á raforkumarkaði hér á landi. Í greinaflokknum Mátturinn eða dýrðin sést hvernig sífellt fleiri togast á um náttúruauðlindirnar sem eru af skornum skammti. Bent var á áhrif breyttra neysluvenja landsmanna með rafbílavæðingu og að eftirspurn fyrirtækja eftir raforku væri nú meiri en hægt er að afgreiða.

Um leið og þróun þessarar umræðu kom vel fram var bent á hvernig núverandi staða kallar á aðgerðir til að auka orkuframboð eða draga úr notkuninni. Sunna ræddi við tugi manna um stöðuna: íbúa, náttúruverndarsinna, virkjanaaðila, forsvarsmenn stofnana og aðra sem hafa hagsmuni og skoðanir á málinu. Málefnið er mikilvægt, framsetningin skýr og greinargóð, byggð á heimildum sem sóttar voru víða,“ segir í umsögn dómnefndar.

Viktoría Hermannsdóttir, RÚV, hlaut verðlaun fyrir viðtal ársins og Alma Ómarsdóttir, RÚV, hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins.

Viktoría hlaut verðlaunin fyrir viðtal við Árna Jón Árna­son í þætt­in­um Á ég bróður á Íslandi? Ein­stök og fal­leg inn­sýn í líf manns þegar hann fær þær frétt­ir að hann eigi hálf­bróður og hitt­ir í fyrsta sinn. Umsögn dómnefndar er á þessa leið:

„Viðtalsþáttur Viktoríu er unninn af fagmennsku og góðri tilfinningu fyrir efniviðnum. Í viðtalinu eru  hlustendur teknir með í spennandi ferð sem hefst með leit Bandaríkjamannsins David Balsam að bróður sínum hér á landi. Bróðirinn finnst og heitir Árni Jón Árnason.

Í áhrifamiklu viðtali nær Viktoría að draga fram hægláta persónu Árna, sem ekki  hefur krafist þess að taka mikið pláss í lífinu. Sambandi Árna við móður sína og systkini hér á á landi er vel lýst, sem og áhrifum þess að alast upp sem ástandsbarn. Um þann hluta hernámsins á Íslandi hefur ekki verið mikið fjallað og er viðtalið  frábær viðbót við hina vönduðu þáttaröð, Ástandsbörn, sem Viktoría gerði einnig á síðasta ári.“ 

Alma Ómarsdóttir hlaut verðlaunin fyrir upp­lýs­andi og heild­stæða um­fjöll­un um hverj­ir hlutu upp­reist æru, hverj­ir væru meðmæl­end­ur þeirra og áhrif upp­reist­ar­inn­ar á brotaþola.

„Umfjöllun Ölmu um uppreist æru var heildstæð, þar sem allar hliðar málsins voru kannaðar. Rætt var við fulltrúa aðila sem sótt hafði um uppreist æru, konur sem brotið hafði verið gegn og aðstandendur þeirra og ferli umsóknar útskýrt.

Í samskiptum sínum við framkvæmdavaldið, sem ber ábyrgð á ferlinu, kom Alma hins vegar að lokuðum dyrum, þar sem neitað var að veita upplýsingar um hverjir hefðu fengið samþykktar umsóknir og hverjir veitt hefðu meðmæli með slíkum umsóknum. Ölmu tókst, meðal annars með kæru til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að tryggja að öll gögn kæmust upp á yfirborðið og dró þannig fram nýjar upplýsingar sem skiptu verulegu máli fyrir almenning,“ segir í umsögn dómnefndar.

Þá hlaut rit­stjórn Stundarinnar blaðamannaverðlaunin fyr­ir ít­ar­lega um­fjöll­un um upp­reist æru kyn­ferðis­brota­manna, áhrif þess á fórn­ar­lömb mann­anna og tregðu stjórn­valda til upp­lýs­inga­gjaf­ar. Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:

„Umfjöllun Stundarinnar um uppreist æru var vönduð, yfirgripsmikil og heildstæð. Samhliða ítarlegum fréttaskýringum birtust í upphafi umfjöllunarinnar áhrifarík viðtöl Áslaugar Karenar Jóhannsdóttur við fórnarlömb Róberts Downey sem sýndu mikla næmni fyrir umfjöllunarefninu.

Stundin lagði af mörkum mikla frumkvæðisvinnu í þessu máli og greindi fyrst miðla frá því að annar kynferðisbrotamaður, Hjalti Sigurjón Hauksson, hefði fengið uppreist æru samtímis Róbert og að til þess hefði Hjalti hlotið meðmæli frá föður þáverandi forsætisráðherra. Sú uppljóstrun Stundarinnar átti eftir að draga verulegan dilk á eftir sér sem endaði með stjórnarslitum og kosningum.“

Sunna Ósk Logadóttir hlaut verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins.
Sunna Ósk Logadóttir hlaut verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins. Mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is