„Guð, ef þú ert til, hjálpaðu mér núna“

Tíkin Dimma og eigandi hennar, Ríkharður Óskarsson, voru bæði í …
Tíkin Dimma og eigandi hennar, Ríkharður Óskarsson, voru bæði í lífshættu í morgun þegar þau féllu í ísilagt vatn í Innri-Njarðvík. Ljósmynd/Ríkharður Óskarsson

Ríkharður Óskarsson og labrador-tíkin Dimma voru í sinni daglegu göngu í Innri-Njarðvík laust fyrir klukkan sjö í morgun þegar göngutúrinn tók skyndilega óvænta og jafnframt lífshættulega stefnu.

„Við vorum að nálgast kirkjuna og það var svolítill vindur í morgun og ég var að hlusta á útvarpið eins og venjulega þegar það fýkur plastbrúsi út á ísilagt vatnið og ég heyri eitthvert busl. Þegar ég sný mér við sé ég Dimmu þarna langt úti á pollinum ofan í vök að berjast við að komast upp,“ segir Ríkharður í samtali við mbl.is.

Honum krossbrá og vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við í fyrstu. „Það voru allir sofandi og svarta myrkur. En ekki gat ég horft aðgerðarlaus á tíkina mína drukkna þarna, svo ég reyndi að skríða á maganum til hennar.“ Hann fór út á ísinn en þurfti að skríða síðasta spölinn til Dimmu. Þá gaf ísinn sig og Ríkharður féll ofan í vatnið. „Ég náði ekki til botns en gat haldið mér í brúnina á ísnum og náði að kippa Dimmu upp. Hún hljóp strax í land voða ánægð, þurrkaði sér í grasinu, en henni datt ekki í hug að koma aftur og hjálpa mér,“ segir Ríkharður.

„Ég ætla ekki að fara að drepast hér“

Hann var einn eftir í vatninu og barðist fyrir lífinu sínu. „Ég held að ég hafi barist þar í fimm eða sex mínútur og reyndi að krafla mig upp á ísinn og öskraði á hjálp en enginn heyrði í mér. Svo hugsaði ég með mér: „Ég ætla ekki að fara að drepast hér“ og sparkaði af alefli og buslaði og buslaði og náði að krafla mig upp á ísinn og lét mig svo rúlla upp að grynningu þar sem ég vissi að var frosið. Þar fór ég upp á hnén og skreið það sem eftir var í land.“

Um tíu mínútna gangur er að heimili Ríkharðs frá kirkjunni. „Ég hélt að ég myndi ekki hafa það af þar sem gallinn var allur klakabrynjaður. Ég gat ekki rennt rennilásnum á vasanum og náð í bílskúrshurðaropnarann. Ég þurfti að lemja á allar rúðurnar til að vekja konuna.“

Eiginkonan kom til bjargar og aðstoðaði Ríkharð, en kraftgallinn var orðinn að risastórum klaka og var hann nánast fastur í gallanum. Ríkharði tókst að lokum að komast úr gallanum og fór beint í heita sturtu.

Dimma er 19 mánaða labrador.
Dimma er 19 mánaða labrador. Ljósmynd/Ríkharður Óskarsson

Titrar enn 

Ríkharður segir að þessi reynsla hafi tekið meira á andlega en líkamlega, þrátt fyrir að vatnið hafi verið ískalt. „Þegar ég var þarna ofan í horfði ég á kirkjuna og krossinn og hugsaði með mér: „Guð, ef þú ert til, hjálpaðu mér núna.“ Stuttu eftir það gat ég kraflað mig upp.“  

Ríkarður titrar enn þá, um 10 klukkutímum eftir atvikið, og hefur ekki náð að festa svefn. Aðra sögu er að segja af Dimmu. Hún er búin að sofa síðan klukkan átta í morgun, en hún er ekki lík sjálfri sér og vill bara sofa í sínu bæli. Hann er þakklátur fyrir að ekki fór verr en segir sjokkið vera mikið og að það muni taka tíma að jafna sig. Hann deildi reynslu sinni með félögum Hundasamfélagsins á Facebook og vakti athygli á hættunni sem fylgir svæðinu.

mbl.is