„Fólk kann­ast ekki við þetta at­vik“

Stjórnarkjör í Eflingu fer fram í dag og á morgun.
Stjórnarkjör í Eflingu fer fram í dag og á morgun. mbl.is/Eggert

Enginn starfsmaður Eflingar kannast við atvik þar sem kona af erlendu bergi brotnu á að hafa verið hvött til kjósa A-listann frekar en B-listann þegar hún ætlaði að greiða utankjörfundaratkvæði í stjórnarkjöri Eflingar-stéttarfélags. Þetta segir Magnús Norðdahl, formaður kjörstjórnar, í samtali við mbl.is.

Gísli Tryggva­son, lög­fræðileg­ur ráðgjafi B-lista í stjórn­ar­kjöri Efl­ing­ar, sendi Magnúsi bréf með yf­ir­lýs­ingu tveggja ein­stak­linga sem segja að kona sem starfar á skrif­stofu Efl­ing­ar hafi hvatt konu sem er af er­lendu bergi brot­in til að kjósa A-lista er hún ætlaði að greiða utan­kjör­fund­ar­at­kvæði.

Magnús segist hafa farið yfir málið með starfsfólki en enginn kannist við þetta atvik. „Þetta er bréf sem var ekki stílað á neinn sem ég fékk sent frá manni úti í bæ, lögfræðingi B-listans. Þar stendur að hugsanlega geti þetta réttlætt einhverja kæru, en engin kæra hefur komið. Þrátt fyrir það, sem góður og gegn starfsmaður kjörstjórnar, fór ég yfir málið með starfmönnum og fólk kannast bara alls ekki við þetta atvik.“

Gísli sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann von­aðist til að kjör­stjórn sýndi frum­kvæði í mál­inu og hefði á því rann­sókn. „Ég er ekki viss um að það eigi að láta ein­stök­um fram­boðum það eft­ir að móta stefnu í þessu máli,“ sagði hann. Þegar mbl.is náði aftur tali af Gísla nú undir kvöld hafði hann ekki náð að funda með sínu fólki og því hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort kæra verði lögð fram.

Magnús segir fyrst og fremst fulltrúa listanna að leggja fram kæru telji þeir þörf á því. „Það er auðvitað fyrst og fremst fulltrúa listanna að setja fram kæru ef þeir telja einhvern misbrest vera á framkvæmd kosningarinnar. Engin slík kæra hefur borist frá þeim. Ég fór hins vegar yfir málið með starfsmönnum kosningarinnar og satt best að segja þá hefur þetta farið mjög vel fram.“

Um 1.000 manns voru höfðu kosið þegar blaðamaður náði sambandi við Magnús, en ekki er um nákvæmar tölur að ræða. Rúmlega 16 þúsund manns eru á kjörskrá. Aðspurður hvort þetta sé meiri eða minni kosningaþátttaka en búist var við segist Magnús hafa rennt blint í sjóinn með það. „Hjá stéttarfélögum hefur þetta farið upp í að vera 10 prósent upp í 27 prósent. Það er allur gangur á því.“ Kosning til stjórnar Eflingar fer fram í dag og á morgun; í Reykjavík, Hveragerði og í Þorlákshöfn. Opið er til 20 í kvöld. Áður hafði farið fram utankjörfundaratkvæðagreiðsla í hálfan mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert