Forhúðin er mikilvæg vörn

Lítill drengur umskorinn.
Lítill drengur umskorinn.

„Öll börn eiga rétt á því að vera varin gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum. Vonandi tekst okkur Íslendingum það sem öðrum þjóðum hefur enn ekki tekist, það er að vernda börn fyrir umskurði með lagasetningu.“ Þetta kemur fram í leiðara Læknablaðsins

Jórunn Viðar Valgarðsdóttir, heimilislæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, og Hannes Sigurjónsson, lýtalæknir á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi, eru leiðarahöfundar. Þau eru á meðal þeirra 500 íslenskra lækna sem eru fylgjandi frumvarpi til laga um bann við umskurði drengja sem hefur vakið mikla umræðu hér á landi sem og í útlöndum. 

Í leiðaranum er bent á að umskurður drengja felur í sér brottnám á heilbrigðum vef og hættu á ýmsum fylgikvillum og er sjaldan beitt í læknisfræðilegum tilgangi. Í nýlegri danskri rannsókn er sýnt fram á að einungis 1,7% drengja sem ekki voru umskornir við 0-18 ára aldur þurftu skurðaðgerð vegna of þröngrar forhúðar. 

Forhúðin gegnir mikilvægu hlutverki en hún er meðal annars mikilvæg vörn fyrir þvagrásaropið og kóng getnaðarlimsins og talin mikilvæg þegar kemur að kynörvun og kynlífi. 

Þekktir fylgikvillar umskurðar eru meðal annarra blæðing, sýking, skyntap, áverki á þvagrás, þrenging þvagrásarops, opnun sára og drep í getnaðarlim að hluta eða öllu leyti svo fátt eitt sé nefnt. Þá hafa fjölmargir umskornir karlmenn lýst öðrum óæskilegum áhrifum, líkamlegum og sálrænum. Þetta kemur fram í leiðaranum.

Aðgerðir á stúlkum kynbundið ofbeldi en eðlilegar á drengjum

Í sama blað ritar Dögg Pálsdóttir lögmaður lögfræðipistil sem nefnist Nauðsynlegar og ónauðsynlegar aðgerðir á börnum. Hún bendir á að skurðaðgerðir á kynfærum barna, stúlkna, drengja og intersex-barna hafa fengið vaxandi athygli á síðustu árum. 

Slíkar aðgerðir á stúlkum eru víðast í hinum vestræna heimil bannaðar og litið á þær sem kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Þessar aðgerðir á drengjum eru á hinn bóginn víðast í hinum vestræna heimi taldar sjálfsagðar og eðlilegar, nánast hættulausar, þó að vitað sé um tilvik þar sem eitthvað fer úrskeiðis.“ Þetta kemur fram í grein Daggar.  

Í umræðunni um þetta umdeilda frumvarp hefur meðal annars verið bent á að foreldrar ráða hvað er gert við börnin þeirra. Það er ekki alls kosta rétt því í gildi eru meðal annars lögræðislög, barnalög og lög um réttindi sjúklinga og samkvæmt þeim geta foreldrar til dæmis ekki neitað barni sínu um að fá blóð sé það barninu lífsnauðsynlegt.   

„Þetta þýðir til dæmis að ef foreldrar barns neita að samþykkja nauðsynlega blóðgjöf og ekki vinnst tími til að leita til barnaverndaryfirvalda þá er skylt að gefa barninu blóð sé það nauðsynlegt vegna meðferðar þess. Andstaða foreldra við blóðgjöfina er þá einfaldlega ekki virt.“

Þegar barn er umskorið er aðgerðin sársaukafull og oft gerð án deyfingar. „Sýnist aðgerðin því samrýmast illa þeim ákvæðum Barnasáttmálans sem tryggja þeim rétt til að hafa áhrif á eigið líf og fyrirmælum um að tryggja börnum vernd gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði þeirra,“ segir í greininni. 

Hér má lesa Læknablaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert