Miður sín að dragast inn í umræðuna

Stjórnarkosning fer núna fram í Eflingu-stéttarfélagi.
Stjórnarkosning fer núna fram í Eflingu-stéttarfélagi. mbl.is/Eggert

Þráinn Hallgrímsson, skrifstofustjóri Eflingar-stéttarfélags, segir að ekki sé hægt að líkja saman stjórnmálaafskiptum sínum og Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem býður sig fram til formanns Eflingar.

„Í mínum huga er hér mjög ólíku saman að jafna,“ segir Þráinn í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér eftir að fjallað var um það í Silfrinu á RÚV í gær að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna í síðustu alþingiskosningum.

Hann staðfestir að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna í síðustu alþingiskosningum og einnig fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Kópavogi. Í bæði skiptin hafi hann verið mjög aftarlega á listanum.

„Mér þykir það mjög miður að vera dreginn inn í þessa umræðu með þessum hætti. En kemst ekki hjá því að draga fram staðreyndir málsins. Tel sjálfur að störf mín í stjórnmálum hafi ekkert með það að gera að Sósíalistaflokkurinn ákveður að bjóða fram í Eflingu til þess að reyna að fella stjórn félagsins,“ segir Þráinn í yfirlýsingunni.

Sólveig Anna hefur verið virk í starfi Sósíalistaflokks Íslands, sem er undir forystu Gunnars Smára Egilssonar. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sagði í samtali við Morgunblaðið í lok janúar það vera ljóst að með framboði hennar til formannskjörs Eflingar væri Sósíalistaflokkurinn kominn fram með sinn frambjóðanda til forystu stéttarfélagsins. Einnig sagðist hann hafa efasemdir um blöndu verkalýðsbaráttu og flokkspólitíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert