Ræða van­traust­s­til­lögu á dómsmálaráðherra

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir ræða sín á milli um mögu­leika þess að leggja fram van­traust­s­til­lögu á Sig­ríði Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra vegna fram­göngu hennar í Lands­rétt­ar­mál­inu. Þetta var rætt á fundi þing­flokks­for­manna stjórn­ar­and­stöð­unnar í dag. Kjarninn greindi fyrst frá.  

„Við erum að skoða þetta,“ segir Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Of snemmt er að segja til um hvort vantrauststillagan verði lögð fram segir Oddný, spurð hvort meiri líkur en minni séu á því tillagan verði lögð fram. 

„Ég er ekki alveg viss um að allir flokkarnir hafi nákvæmlega sömu áherslu í þessu,“ segir Ólafur Ísleifsson þingflokksformaður Flokks fólksins um vantrauststillöguna. 

„Við viljum fara með gát og af ábyrgð,“ segir Ólafur spurður hvar flokkurinn liggur í þessu máli. Hann bendir á að ýmislegt verði að liggja fyrst fyrir áður en lengra er haldið meðal annars niðurstaða Hæstaréttar í máli Arnfríðar Einarsdóttur. Hún er einna þeirra dómara sem Sigríður mat hæfa til að gegna embætti dómara við Landsrétt. 

Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­son kærði niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar en hann krafðist þess að fyrir Landsrétti að hún myndi víkja sæti úr Landsrétti vegna vanhæfis á grundvelli þess hvernig staðið var að ráðningu hennar.

Telur „ágætar líkur“ á samstöðu stjórnarandstöðunnar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, staðfestir þetta einnig. Stjórnarandstöðuflokkarnir ræddu þetta á fundi í dag eftir að umboðsmaður Alþingis taldi ekki ástæðu til að hefja frumkvæðisrannsókn á ákvörðun dómsmálaráðherra. Hann sendi bréf þess efnis til stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar Alþing­is á föstu­dag síðastliðinn. 

Hún bendir á að í bréfinu komi margir áhugaverðir vinklar fram sem ekki hafa áður komið fram. „Mér finnst þeir tilefni til frekari yfirlegur,“ segir Þórhildur.   

„Ég tel ágætar líkur á því,“ segir Þórhildur spurð hvort hún telji líklegt að stjórnarandstaðan nái samstöðu um að leggja fram vantrauststillöguna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert