„Það eru svik við Alþingi“

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði dómsmálaráðherra hafa svikið þingið.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði dómsmálaráðherra hafa svikið þingið. mbl.is/Hari

„Ég vantreysti ráðherra og vona að það geri sem flestir,“ sagði Jón Þór Ólafson, þingmaður Pírata, við umræðu um vantrauststillögu Samfylkingarinnar og Pírata í garð Sigríðar H. Andersen dómsmálaráðherra, sem hófst á þingi um hálffimmleytið í dag.

„Dómsmálaráðherra verður að vera traustsins verður,“ sagði Jón Þór og rifjaði upp ferli dómaraskipunarinnar. Sagði hann ráðherra hafa skrifað reglurnar upp á nýtt þegar hæfisnefnd var ekki tilbúinn að fjölga þeim umsækjendum sem töldust hæfastir sem dómara í Landsrétt.

„Þá ákveður hún að skrifa reglurnar upp á nýtt og refsa nefndinni fyrir  að hafa ekki gert það sem ráðherra vildi.“ Dómsmálaráðherra hafi verið einn um sína skoðun á meðan að sérfræðingar stjórnsýslunnar höfum verið á öðru máli og það séu svik við þá sem séu lögbundnir að sinna þessum störfum.

Sagði Jón Þór dómsmálaráðherra einnig hafa svikið samstarfsflokka sína, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og þingið allt með því að láta ekki vita af því að hún hefði verið ein þessarar skoðunar. „Það eru svik við Alþingi,“ sagði hann og bætti við að dómsmálaráherra hefði hafnað tillögu nefndarinnar um að hún fengi lengri tíma til að vinna í málinu.

„Það var vandað til málsins alla tíð, allt þar til á lokametrunum þegar ráðherra ákvað að setja sitt fólk í dóminn.“ Réttaróvissa mundi því ríkja um Landsrétt næstu árin. „Þetta verður kært til mannréttindadómstólsins,“ bætti Jón Þór því næst við. „Það verður sagt að dómararnir séu í þakkarskuld við hana. Þessi ráðherra hefur svikið alla aðila í þessu ferli frá upphafi til enda. Hún hefur ekki viðurkennt mistök. Það er alltaf einhverjum öðrum að kenna.“

Kvaðst Jón Þór vera þeirrar skoðunar að einstaklingur sem skemmi svona mikið hann muni halda áfram að svíkja. „Ég vantreysti ráðherra og vona að það geri sem flestir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert