Vonar að þvarginu sé nú lokið

Sigríður vonast nú til að vinnufriður fáist á Alþingi.
Sigríður vonast nú til að vinnufriður fáist á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bara ánægð að hafa fengið það staðfest að ég njóti trausts þingsins og þakklát fyrir að það hafi komið fram. Það er í sjálfu sér ágætt að þessi vantrausttillaga loksins kom, svo lengi var búið að boða hana,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is, en vantrausttillaga sem Píratar og Samfylkingin settu fram á hendur henni var felld á Alþingi.

„Það er athyglisvert að það er ekki öll stjórnarandstaðan sem stendur að henni. Menn greiddu nú atkvæði með margskonar röksemdarfærslum,“ segir Sigríður jafnframt.

Tillöguna lögðu Samfylkingin og Píratar fram vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu, en ráðherra vék frá hæfnismati dómnefndar og gekk framhjá fjórum af þeim fimmtán dómurum sem nefndin mat hæfasta. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember að ráðherra hefði ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni við skipunina og hefði með því brotið stjórnsýslulög.

Sigríður vonast nú til að umræðu um málið sé lokið og að vinnufriður skapist í þinginu. „Ég vona að þessu þvargi um þetta mál sé nú lokið. Ég vona að menn fái nú einhvern vinnufrið. Auðvitað var markmiðið með þessari vantrauststillögu einna helst, af hálfu þeirra sem lögðu hana fram og þrífast á umfjöllun um vantraust og hafa að mínu mati þrifist á því að tala niður störf þingsins, störf embættismanna og stjórnsýslunnar í heild, að koma í veg fyrir vinnufrið. Mér hefur það fundist einkenna þeirra málflutning.“

Hún segist eftir sem áður reiðubúin í gott samstarf við alla þingmenn og hún hafi bæði í þessu máli, sem og öðrum, átt frumvæði að gegnsæju samtali við þingmenn, eins og þeir hafi óskað eftir. „Ég mun halda því áfram. Ég vona að það verði gagnkvæmt. Mönnum ber skylda til þess að vinna hér að góðum málum.“

Sigríður segir ekkert hafa komið sér á óvart varðandi málið, hvorki í umræðunum né í atkvæðagreiðslunni. „Nei, það kom mér nákvæmlega ekkert á óvart í þessu. Allt var þetta fyrirsjáanlegt. Öll ummæli og öll gífuryrði sem féllu voru auðvitað ekki í neinu samræmi við tilefnið, en þau voru öll fyrirsjáanleg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina