„Það á hreinlega að gleyma þessu“

Þorsteinn segir að bera verði virðingu fyrir börnunum og telur …
Þorsteinn segir að bera verði virðingu fyrir börnunum og telur ekki sjálfgefið að íslenskuprófið verði endurtekið. mbl.is/Eyþór Árnason

Formaður Skólastjórafélags Íslands segir ekki sjálfgefið að nemendur í 9. bekk eigi að þreyta samræmt íslenskupróf aftur, eftir að fresta varð prófinu í morgun vegna tæknilegra örðugleika. Hann telur próftökuna í morgun hafa verið algjörlega ómarktæka og það eigi hreinlega að gleyma því að prófið hafi átt sér stað. Hann hefur óskað eftir fundi með Menntamálstofnun vegna málsins. 

Þegar nemendur skráðu sig inn í rafrænt prófakerfi til að þreyta prófið morgun komu víða upp vandamál. Sumir komust ekki inn í prófið á meðan aðrir duttu út meðan á próftökunni stóð. Einhver hluti nemenda náði þó að ljúka prófinu. Á heimasíðu Menntamálastofnunar segir að vandann megi rekja til þess að prófakerfið átti að færast yfir á afkastameiri vefþjón en vegna tæknilegra vandamála hafi sú yfirfærsla misfarist. Þegar umfang vandans var ljóst um klukkan tíu í prófinu var skólastjórum gefið leyfi til að fresta prófinu.

„Þrátt fyrir að það hafi verið gefið upp að ákveðið margir nemendur hafi klárað prófið þá er ekkert að marka það. Ég heyrði af því frá félögunum vítt og breytt um landið í dag að nemendur töfðust mikið í upphafi og meðan á próftöku stóð. Þá urðu þeir nemendur sem voru að taka prófið, og það gekk, fyrir truflunum í rýmunum þar sem þeir voru auk þess sem þeir voru að detta út og inn í prófið,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, í samtali við mbl.is

Próftakan algjörlega ómarktæk

Þorsteinn segir nemendur um allt land hafa lent í vandræðum með prófið og að ástandið hafi ekki virst verra eða betra á einum stað frekar en öðrum. „Ég heyrði um dæmi í stærri skólum þar sem jafnvel helmingur nemenda komst strax inn, en hinir biðu lengi. Svo þegar þeir komust inn eftir hálftíma eða klukkutíma, þá duttu þeir út sem höfðu geta byrjað á prófinu.“

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að um börn er að ræða og bera verði virðingu fyrir þeim. „Þetta eru börn og niðurstaða þeirra einstaklinga sem verða fyrir svona truflun í prófi gerir það að verkum að próftakan er algjörlega ómarktæk. Það á bara hreinlega að gleyma þessu segi ég. Gleyma því að þetta próf hafi átt sér stað. Svo geta menn rætt það hvort eigi að taka annað próf einhvern tíma apríl, eins og ég hef heyrt aðeins af í dag, eða hvort þessu verði sleppt alveg í þetta skipti. Mér finnst það ekki sjálfgefið gagnvart börnunum að fyrst ekki tókst að taka prófið sómasamlega í morgun, þá eigi þau bara að taka það síðar.“

Þorsteinn telur það þó ekki stóra málið í stöðunni hvort prófið verði tekið síðar eða ekki, hann vonast bara til að næstu tveir dagar gangi vel. En á morgun fer fram samræmt próf í stærðfræði og í ensku á föstudag.

„Við eigum að bera virðingu fyrir einstaklingum og sjá til þegar búið er að klára prófin á morgun og föstudag. Nemendur fóru bara heim í dag og takast á við ný viðfangsefni á morgun. Vonandi tekst það vel því við megum ekki við svona aftur á morgun.“

Skólastjórar spiluðu vel úr erfiðri stöðu

Á vef Menntamálastofnunar kemur fram að sérfræðingar og þjónustuaðilar hafi farið yfir atvikalýsingu og gert athuganir á prófakerfinu. Talið sé að vandamálið hafi verið greint og að fullnægjandi lausn liggi fyrir. Engin ástæða sé til að ætla annað en að prófakerfið virki í fyrramálið. Þá harmar stofnunin mistökin og biður nemendur og skóla afsökunar óþægindunum.

Aðspurður hvort hann telji þessi óþægindi í morgun jafnvel geta haft áhrif á próftökuna og árangur einhverra nemenda í hinum prófunum segir Þorsteinn auðvitað alltaf hægt að velta því upp. Hann telur þó að skólastjórnendur hafi spilað mjög vel úr erfiðri stöðu í morgun og þeim tekist vel að halda ró nemenda. „Mér fannst á mínum félagsmönnum í morgun að skólastjórnendur hefðu spilað mjög vel úr stöðunni. Það var lagt upp úr því að nemendur yrðu sem minnst varir við þetta undirliggjandi stress sem svona veldur. Það var reynt að taka þetta svolítið á gleðinni.“

Þorsteinn segir að vissulega hafi margir látið stór orð falla sín á milli og á Facebook, en flestir hafi tekið þetta á gleðinni gagnvart börnunum og reynt að halda þeim rólegum. „Himinn og jörð eru ekki að farast þó eitt íslenskupróf klikki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert