Segir 33 vera í stjórnarmeirihlutanum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar- og nýsköpunarmála, segist líta svo á að 33 þingmenn skipi stjórnarmeirihlutann en ekki 35 eftir atkvæðagreiðsluna vegna vantrauststillögu gegn Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á Alþingi í gær.

„Auðvitað er aldrei gaman að fara í gegnum umræðu um vantraust. Við sáum að það voru tveir þingmenn sem hafa á einhvern hátt og einhverju leyti mögulega tilheyrt stjórnarmeirihlutanum. Ég get ekki sagt að ég líti svo á að þeir geri það ennþá. Að því leytinu mætti alveg segja að við séum 33 en ekki 35,“ sagði Þórdís Kolbrún í þættinum Ísland vaknar á útvarpsstöðinni K100 í morgun.

Hún vildi þó ekki meina málið hefði veikt ríkisstjórnina heldur þjappað henni saman. 

Einnig var rætt við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, formann Viðreisnar, í þættinum. Hún sagði að enginn þingmaður sem greiddi atkvæði með vantrauststillögunni hafi gert það af léttúð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert

Viðreisn studdi Sigríði í málinu í síðustu ríkisstjórn en greiddi atkvæði gegn henni í gær. Þorgerður sagði í viðtalinu að flokkurinn hafi ekki dregið dul á það að hann hafi á sínum tíma stutt listann sem Sigríður lagði fram um skipan dómara við Landsrétt.

„En það sem kemur fram í millitíðinni er það sem við fengum ekki að vita. Það var að hún var upplýst af hálfu sérfræðinga ráðuneytisins að þetta væri ekki skynsamlegt sem hún væri að gera og að hún ætti að leita sér frekari ráðgjafar,“ sagði Þorgerður.

„Hún ákvað eftir sínu eigin hyggjuviti að fara þessa leið og upplýsti ekki þingið og ekki samstarfsflokkana í ríkisstjórn. Þetta kemur upp eftir á og það er það sem er það stóra, alvarlega við þetta mál. Það var á þeim grunni sem við greiðum atkvæði eins og í gær.“

Hún bætti við að sér þætti miður að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, væri búinn að setja sig í skotgrafirnar. „Það er eins og hann hafi einmitt ekki hlustað á ræðurnar í gær.“

Þorgerður Katrín kvaðst jafnframt velta fyrir sér hvort Bjarni, sem þá var forsætisráðherra, hefði hleypt málinu í gegnum ríkisstjórn ef þingmenn hefðu verið upplýstir um stöðu mála strax frá byrjun.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert