Segir mistökin liggja hjá þjónustuaðila

Samræmda prófið í íslensku í dag gekk ekki sem skildi.
Samræmda prófið í íslensku í dag gekk ekki sem skildi. mbl.is/Hari

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að það hafi verið búið að kanna hvort kerfið sem sá um samræmda könnunarprófið í íslensku í morgun myndi þola álagið. Þrátt fyrir það þoldi netþjónninn ekki álagið en Arnór segir að rekstraraðili hafi gert mistök þegar prófakerfið var fært yfir í afkastmeiri netþjón.

Í tilkynningu frá Menntamálastofnun kom fram að ákveðið hefði verið að fresta fyrirlögn prófsins. Hjá þeim nemendum sem náðu að ljúka prófinu munu niðurstöður líklega standa. Hugsanlega gefst öðrum kostur á að þreyta könnunarpróf í íslensku síðar. Mun Menntamálastofnun vera í samráði við grunnskóla um hvenær hægt verði að leggja slíkt próf fyrir. 

Þjónustuaðili gerði þar einhver mistök og þess vegna réði netþjónninn ekki við álagið,“ segir Arnór en áður hafði komið fram að um 1700 af rúm­lega 4000 nem­end­um luku prófinu en tækni­leg vanda­mál voru þess vald­andi að hinir gátu ekki tekið prófið.

Arnór segir að það hafi verið kannað hvort kerfið myndi þola álagið sem fylgir því að rúmlega 4000 nemendur fari inn í kerfið á sama tíma. „Rekstraraðili kerfisins kom hingað fyrir nokkrum vikum og það var búið að fara yfir þetta allt. Þeir gerðu bara mistök við að færa þetta yfir á þennan afkastameiri netþjón.

Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, sagði í morgun að aukaálag hefði skapast vegna nemenda með sérúrræði sem notast við hljóðskrár.

„Það er bara hluti af álaginu og er ekkert óeðlilegt álag. Við fórum rækilega í gegnum það með þessum aðilum að kerfið réði við álagið,“ segir Arnór og bætir við að mun fleiri nemendur hafi verið inni í prófinu á sama tíma í fyrra þegar það var bæði lagt fyrir 9. og 10. bekk.

Margir reiðir

Á Facebook-síðu Menntamálastofnunar sést að margir eru reiðir vegna framkvæmdarinnar. Þar er talað um óboðleg og óásættanleg vinnubrögð og að ákvörðun um frestun prófs hafi verið tekin allt of seint.

„Við erum í samráði við menntamálaráðuneytið og félag skólastjóra að fara yfir málið. Við munum funda með þeim í næstu viku þegar prófunum er lokið til að ákveða næstu skref.“

Þjónustuaðili prófakerfisins telur nú að lausn sé nú komin á þessum tæknilegum vandamálum. Því mun fyrirlögn samræmdra könnunarprófa í stærðfræði og ensku halda áfram á morgun, fimmtudag, og á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert