Samræmd próf verði gerð ógild

Frá samræmdu prófi.
Frá samræmdu prófi. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, óskar eftir því að samræmd könnunarpróf frá deginum í gær verði gerð ógild en samkvæmt upplýsingum frá fjölmörgum skólastjórum voru prófaðstæður óviðunandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Þeir miklu hnökrar sem fram komu höfðu afar neikvæð áhrif á líðan nemenda og kennara. Sú leið að endurtaka prófið er afar umdeilanleg og mælir Grunnur með að það verði ekki gert,“ segir í tilkynningunni.

Þar er einnig mælt með því að hugað verði að almennum breytingum á fyrirkomulagi samræmdra könnunarprófa hérlendis.

„Mörg lönd sem við berum okkur saman við, sem ná góðum námsárangri í PISA, eru með aðrar áherslur sem skila góðum námsárangri. Færa má rök fyrir því að samræmdu könnunarprófin hér á landi hafi jafnvel haft neikvæð áhrif á þróun kennsluhátta og almennt skólastarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert