Hafa lagt á sig mikla vinnu til einskis

Helga Margrét Ólafsdóttir
Helga Margrét Ólafsdóttir Ljósmynd/Aðsend

„Allt í einu þegar við erum að byrja í prófinu þá slokknar á kerfinu á öllum tölvunum, og skjárinn er bara hvítur. Kennararnir vita ekkert hvað þeir geta gert, en þetta endar á því að við bíðum inni í herberginu í klukkutíma þar sem sumir eru enn í prófinu.“ Þannig lýsir Helga Margrét Ólafsdóttir, nemandi í 9. bekk í Garðaskóla í Garðabæ reynslu sinni af samræmda prófinu í íslensku sem haldið var á miðvikudag.

Bekknum hafði verið skipt í tvennt, og átti Helga, ásamt helmingi bekkjarins, að þreyta prófið klukkan níu um morguninn en hinn helmingurinn eftir hádegi. Vandræði með tölvukerfið urðu þó til þess að einungis hluti þeirra sem tóku prófið fyrir hádegi gátu klárað, og hinn helmingurinn var ekki boðaður í prófið.

Til stóð að 9. bekkingar um allt land tækju þrjú …
Til stóð að 9. bekkingar um allt land tækju þrjú samræmd próf í vikunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Stærðfræðiprófið, sem haldið var í gær, gekk vel að sögn Helgu og bjuggust nemendur því við að búið væri að leysa vandamálið sem hefði plagað þau daginn áður. Það var þó ekki raunin því í morgun, þegar leggja átti fyrir þriðja og síðasta prófið, í ensku, komu vandamálin aftur upp.

„Við vorum kannski búin að vera inni í tuttugu mínútur, en þá duttu bara allir út,“ segir Helga. Börnin hafi verið látin bíða inni í herberginu í um klukkutíma, án þess að mega tala saman, þar sem vonir stóðu til að hægt væri að halda prófinu áfram. Á endanum var þó ljóst að svo yrði ekki. Menntamálastofnun sendi út yfirlýsingu um að enginn gæti tekið prófið og krakkarnir skyldu sendir heim.

Mikill undirbúningur til einskis

Helga segir nemendur mjög ósátta með það að ekki hafi tekist að laga tölvukerfið á þessum tveim dögum sem liðu á milli prófanna, sérstaklega í ljósi þess að seinna hollið á mánudeginum hafi verið sent heim í þeim tilgangi.

Undanfarin ár hafa samræmd próf ekki gilt sem aðgöngumiði í menntaskóla, heldur einkunnir nemenda úr lokaprófum í 10. bekk. Nemendum hefur þó staðið til boða að senda menntaskólum einkunnir úr samræmdu prófunum með umsókn sinni, og segir Helga marga sem sækja um vinsælustu skólana gera það.

Kennari!
Kennari! mbl.is/Eyþór Árnason


„Auðvitað eru allir mjög svekktir eftir að hafa lagt á sig mikla vinnu til einskis,“ segir Helga og nefnir að margir nemendur hafi nýtt vetrarfrí – vikulangt frí í lok febrúar – til að búa sig undir samræmdu prófin. Henni finnst mikilvægt að þeir nemendur sem gátu tekið prófin fái út úr þeim, þó svo að ekki verði hægt að senda menntaskólum niðurstöðuna.

Ekki liggur fyrir hvort nemendur verða látnir þreyta prófin að nýju, en Helga segir slíkt ekki boðlegt. „Skólaárið er skipulagt fram í tímann og það virkar ekki að troða svona stórum prófum án þess að stundaskráin raskist mjög mikið.“

Hún furðar sig á að ekki sé neitt varaplan hjá Menntamálastofnun um hvað skuli gera ef tölvukerfið bregst og nefnir útprentuð varapróf sem dæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert