Mosfellsbær tekur á móti flóttafólki

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri …
Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ undirrituðu nýlega samning um móttöku 10 flóttamanna. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mosfellsbær mun taka á móti tíu flóttamönnum samkvæmt samningi sem var undirritaður við félags- og jafnréttisráðuneytið. Þetta er þriðji samningurinn um móttöku flóttafólks sem gerður er á þessu ári. Í hópnum eru sex fullorðnir og fjögur börn, þar af eitt ungmenni eldra en 18 ára.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þetta sé í fyrta sinn sem Mosfellsbær taki formlega á móti flóttafólki, en það hafa samtals þrettán sveitarfélög gert frá því að Flóttamannaráð var sett á stofn árið 1995.

Samningur ráðuneytisins og Mosfellsbæjar lýtur að móttöku, aðstoð og stuðningi við hópinn á næstu tveimur árum. Fólkið kemur, líkt og í fyrri samningar á þessu ári, hingað til lands í samræmi við óskir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem fóru þess á leit að íslensk stjórnvöld tækju á móti arabískumælandi flóttafólki sem staðsett er í Jórdaníu og úgönsku flóttafólki sem staðsett er í Kenýa.

Samningarnir taka til 52 einstaklinga sem kom frá Írak, Sýrlandi og Úganda. Frá árinu 2016 hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 155 einstaklingum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, hlutaðeigandi sveitarfélög og Rauða krossinn á Íslandi.

Verkefnin samkvæmt samningnum snúa í grófum dráttum að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu. Rauði krossinn útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þess og hefur umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert