Pólskum ferðamönnum fjölgar mest

Ferðamenn komu til Íslands þrátt fyrir rysjótt veður og kulda.
Ferðamenn komu til Íslands þrátt fyrir rysjótt veður og kulda. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Erlendum ferðamönnum sem komu um Keflavíkurvöll fjölgaði um 8% í febrúar miðað við sama tíma í fyrra. Voru þeir samtals 160.078 samkvæmt brottfarartalningu Ferðamálastofu og Isavia, en það er um 11.700 fleirum en í febrúar í fyrra.

Þetta er sambærileg fjölgun og síðustu mánuði, en í janúar fjölgaði ferðamönnum um 8,5%, í desember um 8,4% og í nóvember um 9,8%.

Fjölgun brottfara í febrúar á milli ára er nú umtalsvert minni en verið hefur á síðustu árum. Frá 2014 til 2015 var aukningin 34,5%, frá 2015 til 2016 var hún 42,9% og frá 2016 til 2017 var aukningin 47,2%.

Fjöldi Breta og Bandaríkjamanna stendur í stað

Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í febrúar og stendur fjöldi þeirra í stað á milli ára. Brottförum þjóðerna sem falla undir annað fjölgar mest en þar eru mest áberandi Austur Evrópubúar og Asíubúar. Í heild hefur fjöldi brottfara í febrúar meira en þrefaldast á undanförnum fimm árum.

Frá áramótum hafa 307.600 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 8,2% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.

Af einstaka þjóðernum voru brottfarir Breta flestar í febrúar í ár, um 47 þúsund, litlu færri en í febrúar 2017. Brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir, voru 30.500 talsins en þær voru 5,6% fleiri en í febrúar á síðasta ári. Brottfarir Breta og Bandaríkjamanna voru 48,4% af heild. Brottfarir Kínverja í febrúar í ár komu þar á eftir, um 8.600 talsins eða 5,4% af heild og voru þær litlu fleiri en árið 2017.

Hlutfallslega er mest fjölgun í brottförum Pólverja sem voru ríflega tvöfalt fleiri í febrúar í ár en í fyrra en leiða má líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð vegna pólskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna. Þannig má t.d. sjá af landamærakönnun Ferðamálastofu að 27,3% Pólverja í desember og janúar síðastliðnum tilgreindu vinnu eða heimsókn til vina og ættingja sem tilgang með ferð sinni.

Einn af hverjum tíu frá Austur-Asíu

Brottfarir Kínverja, Japana, Hong Kong-búa, Indverja, Taívana, Singapúrbúa og Suður-Kóreubúa voru um 11,6% af heildarbrottförum í febrúar síðastliðnum en byrjað var að telja fimm síðasttöldu þjóðernin sérstaklega frá og með júní á síðasta ári.

Um 40 þúsund Íslendingar fóru utan í febrúar í ár eða 14,4% fleiri en í febrúar 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga í janúar og febrúar um 70 þúsund talsins eða 9,4% fleiri en á sama tímabili árið 2017

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert