Fjármagn frá bönkum í vegina

Sigurður Ingi Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Strax á þessu ári verður ráðist í stórsókn á brýnum framkvæmdum í samgöngumálum sem ekki var gert ráð fyrir í áætlun 2018. Formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, segir að fjármagn úr bönkunum verði nýtt til að byggja upp vegakerfið. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Sigurðar Inga á flokksþingi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir.

„Fyrir kosningar lögðum við áherslu á að nýta fjármuni úr fjármálafyrirtækjunum til innviða uppbyggingar. Það var skrifað í stjórnarsáttmálann.  Við stöndum við það loforð. Við ætlum að nýta fjármagn frá bönkunum til að byggja upp vegakerfið,“ segir Sigurður Ingi í ræðu sinni.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að hraða eigi uppbyggingu í vegamálum. Vegakerfið krefst risavaxinna fjármuna því það er víða í molum, segir Sigurður Ingi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Vegakerfið var ekki byggt fyrir þá umferð sem við höfum verið að horfa upp á. 11% aukning var á umferð á sl. ári.Við höfum ekki undan við að endurbyggja þjóðvegina og koma þeim í það horf sem nútíma þjóðfélag krefst. Ástæðurnar eru öllum kunnar: Of lág fjárframlög til vegamála, stóraukin umferð og álag á vegakerfið.

Við vitum líka að vegakerfið er grundvöllurinn að búsetu, atvinnulífi um land allt. Ef ekkert er vegakerfið verður stöðnun en ekki þróun, einangrun en ekki hreyfing.

 Vegakerfið er hreyfiafl samfélagsins hvernig sem á það er litið. Við viljum og þurfum að komast leiðar okkar og koma vörum á markað. Við ætlum einnig að gera innanlandsflugið að raunhæfari kosti fyrir íbúa í dreifðum byggðum.,“ segir Sigurður Ingi.

Stjórn peningamálana þarf líka að ganga í takt við stefnu ríkisstjórnar. Leiðin til lægri vaxta er m.a. fólgin í endurskoðun peningastefnunnar – sem er í vinnslu – mín skoðun er að peningastefna framtíðarinnar þurfi að taka mið af gengi ekki síður en verðbólgu, segir Sigurður Ingi.

„Fjármálamarkaðurinn hefur tekið stakkaskiptum á liðnum árum og nýtt regluverk verið sett til að minnka líkur á fjármálahruni.

Hvítbókarvinna við endurskoðun fjármálakerfisins á Íslandi er í fullum gangi og mun verða skilað á vordögum.

Hvítbókarvinnan mun svara þeim spurningum sem við höfum spurt m.a. um aðskilnað fjárfestinga og viðskipta, eignarhald og stærð bankakerfisins og fleiri slíkra mikilvægra spurninga.

Brýnt er að gera sér grein fyrir hvernig við viljum sjá þessa þætti fyrir okkur – við höfum löngum haft þá stefnu að fjármálafyrirtækin eigi að vera þjónandi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu með taustum, trúverðugum og ódýrum hætti.

Já, ábyrg, skýr og trúverðug stefna byggð á hagsmunamati fyrir ríkissjóð og almenning. Stöðugleikasamningar og -skilyrðin eru forsenda þeirrar vinnu og ákvarðana sem bíða okkar.

Bankasýslan og FME setja mörkin fyrir hönd ríkisins. Seðlabankinn og óháðir aðilar, erlendir og innlendir sérfræðingar meta stöðuna og veita ráðgjöf.

Við endurskoðun fjármálakerfisins er það mat okkar Framsóknarmanna að skynsamlegt sé að efla eftirlitið m.a. með sameiningu FME og Seðlabankans. Við erum lítið hagkerfi með litla stjórnsýslu.

Já, bankakerfið er stórt á Íslandi – of stórt fyrir hagkerfið. Eigið fé bankanna er hátt – hærra en það þarf að vera – hærra en skynsamlegt er,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gistanáttagjald til sveitarfélaganna

Sigurður Ingi fjallaði um ferðaþjónustuna í ræðu sinni. Þar verði mörkuð stefna til framtíðar, en mestu skiptir að horfa á hvernig við nýtum og verndum náttúruna, segir hann.

„Ferðaþjónustan er komin á ágætis skrið. Ætlunin er að taka upp komugjöld til að mæta auknu álagi á innviði landsins. Einnig er ætlunin að gistináttagjaldið færist alfarið yfir til sveitarfélaga.

Það er einnig gaman að segja frá því að innan flokksins settum við af stað starfshóp til að fara yfir ferðaþjónustumál almennt sem þarf að huga að í stefnumörkun,“ segi Sigurður Ingi.

mbl.is