Ofurhugi ætlar að setja heimsmet

Jón hóf hlaupin í febrúar og var myndaður við það …
Jón hóf hlaupin í febrúar og var myndaður við það tilefni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gengur vel hjá mér,“ segir ofurhuginn Jón Eggert Guðmundsson hlæjandi í samtali við mbl.is. Hann reynir að setja heimsmet með því að fara lengstu þríþraut í heimi. Þríþraut samanstendur af því að hlaupa, synda og hjóla en Jón ætlar að hlaupa 1.295 kílómetra, hjóla 5.152 kílómetra og synda 200 kílómetra.

Jón byrjar á hlaupakaflanum og fór af stað 9. febrúar. Hann hleypur daglega og segist fara það sem jafngildir hálfu maraþoni, 21 kílómetra, á dag. „Ég er búinn með rétt rúmlega 500 kílómetra og verð hálfnaður í næstu viku,“ segir Jón en hann stefnir að því að klára hlaupin í lok apríl.

Jón Eggert þegar hann lauk við að hjóla hringinn í …
Jón Eggert þegar hann lauk við að hjóla hringinn í kringum Ísland sumarið 2016. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ósköpunum lýkur í ágúst

Hann gerir ráð fyrir því að það taki um það bil einn og hálfan mánuð að hjóla 5.152 kílómetra og svipaðan tíma að synda 200 kílómetra. „Ég stefni því á að klára allt saman í byrjun ágúst.“

Jón skellihlær þegar blaðamaður spyr hvernig honum detti í hug að hætta sér út í þessa vitleysu. „Ég gekk strandveginn í kringum Ísland árið 2006 og hjólaði sama hring tíu árum síðar,“ segir Jón en strandvegshringurinn er 4.446 kílómetrar.

„Í framhaldi af því velti ég fyrir mér hvert heimsmetið í þríþraut er og fann það,“ segir Jón. Norma Basti­das hljóp 1.138,7 kílómetra, synti 152,1 kílómetra og hjólaði 3.692,2 kílómetra fyrir fjórum árum. Það er því ljóst að ef Jón nær markmiði sínu setur hann heimsmet en hann býr í Flórída.

Jón Eggert í sundgallanum.
Jón Eggert í sundgallanum. Ljósmynd/Pamela Perez

Er enn furðu hress

Jón er að safna fyrir Wheel heroes með uppátæki sínu. „Það er sjóður sem býr til og aðstoðar foreldra fatlaðra barna við kaup á reiðhjólum. Þetta eru þá börn sem geta ekki notað venjuleg hjól.“

Eins og áður segir verður Jón hálfnaður með hlaupin í næstu viku. Hann kveðst enn þá vera sprækur. „Ég er enn þá furðu hress. Bestu greinarnar mínar eru hjól og sund. Þegar ég er kominn á hjólið þá er það versta að baki. Það er miklu meiri áhætta á meiðslum í hlaupinu og svoleiðis. Sundið verður bara eins og nudd eftir hitt!“

Hægt er að fylgjast með Jóni á bloggsíðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert