Þjóð sem sinnir ekki kennurum er ekki í fremstu röð

Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins og menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, …
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins og menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra. mbl.is/Hari

Þrátt fyrir að íslenskt menntakerfi sé öflugt hefur þróun síðustu ár því miður verið sú að frammistaða íslenska skólakerfisins í hinni alþjóðlegu PISA-könnun hefur versnað, segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og menntamálaráðherra, í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir.

„Ég er þó sannfærð um það að í framsækinni stefnumótun munum við skipa okkur aftur í fremstu röð. Við lifum í heimi örra breytinga og tæknibyltingin mun breyta vinnumarkaði mikið. Þau störf sem verða til í framtíðinni munu í æ ríkari mæli byggjast á hugviti og sköpun. Þess vegna er brýnt að skólakerfið taki mið af þessari þróun og að við sem þjóð búum okkur undir þá spennandi tíma sem framundan eru. Til að vel takist í þróun menntamála þarf allt samfélagið að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Lilja.

Hún segir að íslenska menntakerfið standi á ákveðnum tímamótum og við sem samfélag verðum að taka höndum saman til að styrkja alla grunninnviði menntunar ef við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð og að unga fólkið okkar velji Ísland til búsetu. 

Geta barna er meiri en prófin sýna segir Lilja en …
Geta barna er meiri en prófin sýna segir Lilja en alvarlegt sé hversu Ísland er að dragast aftur úr í lesskilningi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Í fyrsta lagi þarf að styrkja alla umgjörð í kennarastarfsins á öllum skólastigum. Nýliðun þarf að aukast og gera þarf kennarastarfið samkeppnihæft. Ef ekki verður farið í róttækar breytingar, þá blásir við kennaraskortur á næstu árum. Þjóð sem ekki getur hugsað vel um kennarana sína verður ekki í fremstu röð. Þær þjóðir sem hafa farið í þessa fjárfestingu og styrkt alla umgjörð eru með mjög öflug menntakerfi. Hér má nefna Finnland sérstaklega en þar er mjög eftirsóknarvert að fara í kennaranám og kennarastarfið er haft í hávegum í finnsku samfélagi. Þess má líka geta að Finnar tóku meðvitaða ákvörðun um að sækja fram í menntamálum eftir seinni heimsstyrjöldina og fóru í róttækar breytingar á menntakerfinu. Þeir sóttu sér fyrirmyndir í þau menntakerfi sem þóttu standa sig einna best og heimfærðu þær stefnu. Þetta eigum við Íslendingar líka að gera og hika ekki við að bera okkur saman við þær þjóðir sem standa einna fremst. Menntastefnuhópurinn leggur áherslu á að bæta þurfi starfsaðstæður kennara, auka stoðþjónustu og gera þeim betur kleift að sinna að sinna fjölbreytum hópi nemenda,“ segir Lilja.

„Í öðru lagi, þá hefur dregið úr samkeppnishæfni menntakerfisins á grunnskólastiginu ef við miðum við árangurinn í alþjóðlegu PISA-könnuninni. Árið 2000 mældist lesskilningur íslenskra barna í meðaltali á Norðurlöndunum og við vorum yfir OECD-meðaltalinu. Því miður hefur þessu hrakað og nú er Ísland neðst meðal Norðurlandanna og komið undir OECD-meðaltalinu.

Þetta er óásættanlegt og ég er sannfærð um að mun meiri geta sé til staðar hjá börnunum okkar og við verðum að leggja það á okkur að kalla það fram og sýna metnað í þá veru. Það er nefnilega gríðarlega alvarlegt að dragast svona aftur úr og það getur tekið mörg ár að vinna slíkt upp og ef ekkert verður gert, þá munu lífgæði og tækifæri á Íslandi ekki verða þau sömu og á hinum Norðurlöndunum. Vinna er þegar hafin innan ráðuneytisins sem miðar að því að styrkja samkeppnisstöðu okkar og ljóst að við þurfum að gera enn betur.

Í þriðja lagi, þá verður að efla verk-, iðn- og starfsnám á Íslandi. Aðeins 12% grunnskólanemum innritast í verk- og starfsnám á Íslandi en hlutfallið er talsvert hærra á hinum Norðurlöndunum. Það er gríðarleg eftirspurn eftir iðnmenntuðu fólki á Íslandi og því ætti það að vera mjög eftirsóknarvert að velja þá leið. Annað sem ber að hafa í huga er að brotthvarf úr námi á framhaldsskólastiginu er eitt hið mesta á Norðurlöndunum og jafnvel er um að ræða ákveðið orsakasamhengi, þ.e. hin mikla áhersla sem hefur verið á bóklegt nám orsaki þetta mikla brotthvarf sem skilar sér svo í miklum skorti á iðnaðarfólki, sem leiðir til þess að verkvit í landinu er á undanhaldi,“ segir Lilja.

„Í fjórða lagi verðum við að halda áfram að efla háskólastigið. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að fjármagn á hvern nemanda nái OECD-meðaltalinu á árinu 2020. Háskólasamfélagið hefur þegar fundið mun á fjárframlögum og næstu skref miðast að því að efla gæði á háskólastiginu. Rannsóknir sýna að einni krónu sem varið er til háskólastigsins skilar sér áttfalt út í hagkerfið,“ segir Lilja og bætir við því að á Íslandi séu starfandi öflugir háskólar um allt land. 

„Í fimmta lagi, þá er tímabært að ljúka endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna.  Lánasjóðurinn gegnir lykilhlutverki í því að jafna aðgengi að námi óháð efnahag og búsetu. Skipaður hefur verið mjög öflug kona sem formaður stjórnar LÍN en það er Eygló Harðardóttir fyrrverandi ráðherra. Hn er strax farin að gera góða hluti í anda okkar framsóknarmanna og er ég henni þakklát fyrir að taka þetta mikilvæga starf að sér“ segir Lilja meðal annars í ræðu sinni.

Tæknin var að stríða nemendum sem tóku samræmd próf í …
Tæknin var að stríða nemendum sem tóku samræmd próf í vikunni. Billi/Brynjar Gunnarsson

Algjörlega óásættanlegt

Hún talaði einnig um samræmdu prófin sem nemendur í níunda bekk þreyttu í vikunni og segir hún framkvæmd þeirra hafi mistekist gjörsamlega og sé algjörlega óásættanleg fyrir íslenskt menntakerfi.

„Mikil óvirðing við nemendur og kennara og úr þessu verður bætt. Sjálf hef ég fundað í tvígang með forstjóra Menntamálastofunnar til að leita skýringa á þessu mikla klúðri. Mistökin eru tæknileg en svona á ekki að geta gerst og endurskoða þarf alla framkvæmd samræmdra prófa í kjölfarið.

Á miðvikudaginn verður fundur í menntamálaráðuneytinu, þar sem tekin verður ákvörðun um framhaldið, þ.e. stöðu þessara prófa og gildi þeirra. Það er alveg ljóst að hagsmunir nemenda verða hafðir að leiðarljósi í þeirri ákvörðunartöku.  Við erum að undirbúa fundinn afar vel og eftirtöldum spurningum sem brenna á nemendum og foreldrum verður svarað: Hvort þessi próf standa? Hvort ný próf verða lögð fyrir til að meta námsframvindu? Hvernig mun þetta hafa áhrif á námsmat næsta árs í 10. bekk? Réttarstaða nemenda verður höfð að leiðarljósi í þessari vinnu. Undirbúningur er þegar hafin og skýr svör koma í kjölfarið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir sem gefur kost á sér til endurkjörs sem varaformaður Framsóknarflokksins.

mbl.is