Hætta á snjóflóðum á Tröllaskaga

Séð innan úr Héðinsfjarðargöngum á Tröllaskaga.
Séð innan úr Héðinsfjarðargöngum á Tröllaskaga. mbl.is/Sigurður Ægisson

Mikil hætta er á snjóflóðum á Tröllaskaga. Mörg snjóflóð hafa fallið í vikunni. Spáð er snjókomu í dag og er veikleiki í snjónum milli eldri laga og nýrri vís til að valda nýjum flóðum.

Að sögn Hörpu Grímsdóttur, fagstjóra ofanflóða hjá Veðurstofunni, kemur fólk flestum snjóflóðum fjarri byggð af stað. Því sé þeim, sem ekki hafa búnað og kunnáttu til að meta snjóflóðahættu, ráðlagt að halda sig frá fjöllum. 

Hlíðar sem vísa til suðurs, suðvesturs og suðausturs eru taldar varasamastar og er vélsleða- og skíðamönnum, og öðrum göngugörpum, bent á að vara sig á þeim. 

Ekki er talið líklegt að snjóflóð geti náð að Siglufjarðarvegi eða Ólafsfjarðarvegi, en Harpa segir að vel sé fylgst með vegunum. Aðspurð segir hún hættustig geta varað í einhverja daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert