Óttinn hvarf á flugvellinum

„Í byrjun vorum við skelkuð, við vorum á leiðinni til ókunnugs lands. En þegar við komum á flugvöllinn þá, guði sé lof, hvarf óttinn,“ segir Anwar Alsadon frá Írak sem flutti fyrir rúmri viku á Ísafjörð ásamt börnum sínum tveimur Sultan og Qamar. 

Anwar tók á móti blaðamanni mbl.is á snyrtilegu heimili sínu þar sem boðið var upp á arabískan mat og ekta arabískt kaffi sem þau tóku með sér frá Jórdaníu. Þau segja Ísland og Íslendinga mun vinalegri en þau gátu ímyndað sér og hefur verið afskaplega vel tekið á móti þeim.

Sultan, sonur Anwar, hefur unnið sem kokkur og veltir nú fyrir sér hvort mögulegt sé að opna arabískan veitingastað á Ísafirði. En ákveðin segja þau fyrsta skrefið að læra íslensku. 

Fjölskyldan er hluti af þeim hópi sem kom til landsins í boði íslenskra stjórnvalda. Höfðu þau búið í flóttamannabúðum í Amman í Jórdaníu í fimm ár áður en þau komu hingað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert