Sólveig fundaði með félagsmönnum

Sólveig Anna Jónsdóttir tekur formlega við embætti á aðalfundi Eflingar …
Sólveig Anna Jónsdóttir tekur formlega við embætti á aðalfundi Eflingar í lok apríl. Haraldur Jónasson/Hari

B-listinn boðaði til fundar með félagsmönnum Eflingar í dag. Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar, segir í samtali við mbl.is þetta hafa verið fyrsta fundinn af mörgum þar sem fram fer opið lýðræðislegt spjall meðal félagsmanna.

Fundurinn var óformlegur og hugsaður til þess að mynda tengsl við félagsmenn. „Svo sjáum við fyrir okkur að í framhaldi verði fleiri fundir þar sem fer fram markvissari vinna. Þar sem fólk kemur til þess að segja okkur hverjar þeirra væntingar eru, þegar kemur að kjarasamningum og slíku,“ segir Sólveig.

Þegar komi að því að farið verði að móta kröfur félagsins verði búið að fara rækilega yfir hvað kröfur félagsmenn setji í forgang og hvað þeim finnist liggja mest á að laga. „Við meintum það svo innilega sem við sögðum í þessari kosningabaráttu. Þessi löngun okkar til að lýðræðisvæða og virkja grasrót félagsins er raunveruleg,“ segir hún.

Sólveig tekur við sem formaður Eflingar á aðalfundi félagsins í lok apríl. Hún fer á fund Sigurðar Bessasonar, sitjandi formanns Eflingar, í vikunni. Að hennar sögn leggst sá fundur vel í hana. „Ég er bara mjög spennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert