Þrír fluttir með þyrlu á sjúkrahús

Slysið varð skammt austan við Kirkjubæjarklaustur.
Slysið varð skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Allir þeir sem voru í bílunum tveimur sem lentu í árekstri skammt fyrir austan Kirkjubæjarklaustur síðdegis voru fluttir af slysstað með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Ekki liggur fyrir hversu alvarlega þeir eru slasaðir en þeir voru allir með meðvitund á slysstað. 

Uppfært klukkan 19:10 - þyrlan er komin með þá slösuðu á Landspítalann í Fossvogi

Tilkynnt var um áreksturinn til lögreglunnar á Suðurlandi klukkan 16:10 og var strax ákveðið að senda tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar á slysstað. Önnur þyrlan var síðan afturkölluð skömmu síðar þar sem ljóst var að hægt væri að flytja þá slösuðu með einni þyrlu á sjúkrahús. 

Langar bílalestir eru á Suðurlandsvegi vegna slyssins.
Langar bílalestir eru á Suðurlandsvegi vegna slyssins. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Suðurlandsvegi var lokað í báðar áttir og er vegurinn enn lokaður og hafa langar biðraðir myndast beggja vegna við slysstaðinn. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að verið sé að kanna hvort hægt er að hleypa bílum um slóða fram hjá slysstaðnum en það styttist í að hægt verði að opna veginn á nýjan leik. 

Það verður ekki alveg strax þar sem lögreglan er að ljúka störfum á slysstað og eins þarf að flytja bifreiðarnar á brott. Hringvegurinn er því lokaður við Iðjuvelli skammt austan við Kirkjubæjarklaustur um sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert