Ferðamennirnir allir á gjörgæslu

Slysið varð skammt austan við Kirkjubæjarklaustur.
Slysið varð skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Erlendu ferðamennirnir þrír sem lentu í alvarlegu umferðarslysi rétt austan við Kirkjubæjarklaustur í gær eru allir enn á gjörgæslu Landspítalans. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag er ljóst að önnur bifreiðin fór yfir á öfugan vegarhelming og lenti á hinni, en ástæður þess eru enn ekki ljósar. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi.

Í samtali við mbl.is segir Oddur að skýrslur verði teknar af fólkinu þegar ástand þess leyfi. Í öðrum bílnum var einn Taívani sem er fæddur árið 1983, en í hinum bílnum tveir Bandaríkjamenn fæddir árið 1986 og 1991.

Segir Oddur að vegurinn hafi verið auður og veður bjart þegar slysið átti sér stað. Fyrsti bíll á vettvang var lögreglubíll og auðveldaði það aðgerðir lögreglu.

Nokkurra kílómetra löng bílaröð myndaðist eftir slysið þegar veginum var lokað, en engin hjáleið var í boði á þeim stað sem slysið varð. Segir Oddur að lögregla reyni alltaf að finna hjáleiðir til að greiða fyrir annarri umferð í málum sem þessum, en þarna hafi því ekki verið svo háttað.

Í alvarlegum slysum sem þessum sé um gífurlega hagsmuni að ræða við að hlúa að slösuðum og rannsaka vettvang. Stundum sé hægt að opna aðra akrein þegar bílar séu þannig á veginum, en í þessu tilfelli var það ekki hægt og þurfti að klára alla vinnu lögreglu áður en vegurinn var aftur opnaður.

Langar bílalestir eru á Suðurlandsvegi vegna slyssins í gær.
Langar bílalestir eru á Suðurlandsvegi vegna slyssins í gær. Mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert