Kallar eftir gögnum um stigagjöf

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Bréf verða send út á næstunni vegna skoðunar umboðsmanns Alþingis á því hvort ástæða sé til þess að hefja frumkvæðisathugun á notkun stigagjafar við mat á umsækjendum um opinber störf þar sem óskað verður eftir gögnum um málið.

Þetta kom meðal annars fram í máli Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins í morgun þar sem hann fjallaði um ársskýrslu embættisins en umboðsmaður hefur áður gert athugasemd við notkun stigagjafar við mat á umsóknum um opinber störf. Tilefni skoðunarinnar nú er notkun dómsnefnda um skipun dómara á slíkum stigagjöfum í störfum sínum, en slíkt stigagjöf var til að mynda notuð af dómnefnd um skipan dómara við Landsrétt.

Fram kom í bréfi umboðsmanns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í síðasta mánuði, þar sem embættið tilkynnti að það sæi ekki ástæðu til þess að hefja athugun á vinnubrögðum dómsmálaráðherra við skipun dómara við Landsrétt, að til skoðunar væri að hefja frumkvæðisathugun á þeim vinnubrögðum að nota stigagjöf við mat á umsóknum.

Þar sagði ennfremur að sérstaklega yrði horft til þess að hvaða leyti þyrfti að vanda betur til þessara mála. Athugunin myndi ekki einskorðast við vinnubrögð dómnefnda um skipan dómara heldur yrði gagna aflað úr störfum annarra matsnefnda og eftir því sem hægt væri úr málum vegna fleiri ráðninga. Meðal annars sem hefðu komið til kasta embættisins.

Tryggvi sagði á fundinum í morgun að óskað yrði eftir ákveðnum upplýsingum í þessum efnum en verkefnið væri nokkuð umfangsmikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert