KSÍ óskar skýringa hjá FIFA

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent fyrirspurn til Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, um hvers vegna ekki verður hægt að kaupa miða á leik Íslands og Argentínu í miðasöluglugganum sem opnar í fyrramálið vegna HM í Rússlandi í sumar.

„Við vitum að það var mikil eftirspurn í Argentínu vegna leiksins,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, en bætir við að knattspyrnusambandið viti ekki hversu margir miðar voru seldir í miðasöluglugganum í fyrra á leiki Argentínu í keppninni.

Hún segir óljóst hvort selst hafi fleiri miðar á leik Íslands og Argentínu heldur en aðra leiki.

„Við vitum að þetta er ekki stærsti völlurinn í keppninni og mögulega eru leikir sem fara fram í Moskvu ásetnari en aðrir leikir, þannig að það er hugsanlegt að það hafi verið seldir fleiri miðar á þennan leik fyrir fram áður en kom í ljós hvaða lið voru þarna.“

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, greindi frá því í byrjun mars að leikur Íslands og Argentínu sé meðal þeirra sem hvað mest spurn er eftir miðum á af öllum leikjum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert