Mannlegir skildir til varnar Afrin

Haukur Hilmarsson fór til Sýrlands fyrir nokkru og er m.a. …
Haukur Hilmarsson fór til Sýrlands fyrir nokkru og er m.a. sagður hafa tekið þátt í bardögum gegn vígamönnum Ríkis íslams og síðar við hlið varnarsveita Kúrda. Af Twitter

Leit liðsmanna Varnarsveita Kúrda (YPG) að líki Hauks Hilmarssonar um helgina bar engan árangur. Svæðið þar sem Haukur er talinn hafa fallið er nú á valdi tyrkneskra hersveita og því er óvíst hvort og þá hvenær leit verður haldið áfram að sögn heimildarmanns mbl.is á svæðinu sem hefur m.a. verið í samskiptum við  liðsmann YPG sem var með Hauki er árásin sem hann er sagður hafa fallið í átti sér stað. Í frétt mbl.is fyrir helgi kom fram að til stæði í náinni framtíð að reyna að skipta á líkum tyrkneskra hermanna og YPG-liða, þar með talið líki Hauks.

Haukur var liðsmaður útlendingahersveitar sem kallar sig International Freedom Battalion (IFB) og barðist hann að sögn þeirra samtaka gegn uppgangi Ríkis íslams í Raqqa í Sýrlandi í fyrra og síðar í Afrin. Samtökin segja hann hafa fallið þar þann 24. febrúar í árás tyrkneska hersins. Íslenska utanríkisráðuneytið er enn að leita staðfestingar á fregnum af falli Hauks en móðir hans, Eva Hauksdóttir, fékk á föstudag afhent skjöl frá fulltrúum IFB sem henni þykja staðfesta að nánast útilokað sé að sonur hennar sé enn á lífi.

Yfirstjórn Tyrklandshers segist hafa gert 3.347 liðsmenn YPG „óvirka“ frá því að áhlaup þeirra á Afrin-hérað í nágrannaríkinu Sýrlandi hófst þann 20. janúar. Með orðalaginu, sem notað er í tilkynningu hersins frá því í morgun, er átt við fólk sem hefur gefist upp, verið handtekið eða drepið, segir í frétt tyrkneska fjölmiðilsins Hurriyet Daily News, um málið.

 Hernaðaráhlaup Tyrkja á svæðinu er gert í bandalagi við liðsmenn Frelsishers Sýrlands (FSA) sem hefur nú barist við hlið annarra uppreisnarhópa í sjö ár gegn stjórnarher Bashar al-Assads Sýrlandsforseta. Aðgerðin hefur verið kölluð „Ólífugreinin“. 

Varnarsveitir Kúrda hafa hins vegar notið stuðnings Bandaríkjamanna. Tyrknesk stjórnvöld hafa viljað brjóta hreyfingar Kúrda í landi sínu á bak aftur og í þeim tilgangi réðust herir þeirra yfir landamærin til Sýrlands. Þau skilgreina varnarsveitirnar sem  hryðjuverkasamtök.

Vatnið tekið af og netsamband rofið

Í frétt Al Jazeera í gær kom fram að hermenn Tyrkja væru nú komnir að úthverfum Afrin-borgar og byggju sig undir að fara þangað inn. Í gær hafi þeir náð að taka völdin af liðsmönnum YPG í mörgum bæjum og þorpum norðan og sunnan borgarinnar. Fréttamaður Al Jazeera, sem staddur er Tyrklandsmegin við landamærin að Afrin-héraði, segir að almennir borgarar sem styðji YPG ætli sér að gerast það sem kallast „mannlegir skildir“ og varna því að Tyrklandsher komist inn í Afrin-borg. Hann segir að ekki sé aðeins um fólk af svæðum Kúrda að ræða heldur einnig aðra hópa. „Þeir ætla að koma sér fyrir á milli [Frelsishersins] og Tyrkja og YPG,“ segir fréttamaðurinn Alan Fisher.

Í fréttinni kemur ennfremur fram að um helgina hafi Tyrkir gert loftárásir á Afrin-borg. Þá hafi vatn verið tekið af og netsamband rofið.

Í dag segir í frétt AFP að hundruð almennra borgara streymi frá Afrin í dag, mánudag. Flýja þeir m.a. til Nubul, sem er á yfirráðasvæði Sýrlandshers. Þangað eru nú yfir 2.000 flóttamenn komnir en hundruð eru enn á leiðinni þangað.

Sýrlenskir Kúrdar mótmæltu í gær árásum Tyrklands á Afrin-hérað.
Sýrlenskir Kúrdar mótmæltu í gær árásum Tyrklands á Afrin-hérað. AFP

Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti sagði á laugardag að herir hans myndu komast inn í Afrin-borg „innan fárra daga“ en af mannúðarástæðum færu þeir sér hægt til að hlífa lífum almennra borgara.

Syrian Observatory for Human Rights, mannúðarsamtök sem hafa fylgst ítarlega með þróun stríðsins í Sýrlandi frá upphafi, segja að um milljón manns sé nú í Afran-borg. Þangað hafi þúsundir flúið úr nágrannabæjum og þorpum í héraðinu og því kúldrist 4-5 fjölskyldur í hverju húsi.

Frá því hernaðaráhlaup Tyrklandshers hófs í lok janúar hefur hann náð um 950 ferkílómetra svæði í Afrin úr höndum varnarsveita Kúrda. Erdogan segir svæðin hafa verið „frelsuð“ en ekki hertekin.

Konur og börn frá bænum Tal Aswad sem lögðu á …
Konur og börn frá bænum Tal Aswad sem lögðu á flótta undan árásum Trykja í Afrin-héraði á laugardag. AFP

Stjórnvöld Kúrda í Afrin kröfðust þess í yfirlýsingu sem send var öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær að brugðist yrði við yfirgangi Tyrkja á svæðinu. „Alþjóðasamfélagið verður að styðja fólkið í Afrin og taka á innrásinni,“ sagði m.a. í yfirlýsingunni. Fóru þau einnig fram á að flugbann yrði sett á yfir svæðinu en tíðar loftárásir hafa verið gerðar síðustu vikur.

Erdogan skammaðist svo í NATO-ríkjunum í gær og sakaði varnarbandalagið um að standa ekki með Tyrklandi í aðgerðum sínum.

„Hei, NATO, miðað við það sem hefur gengið á í Sýrlandi, hvenær ætlið þið að koma og standa við hlið okkar?“ sagði hann á fundi með stuðningsmönnum sínum í borginni Bolu í Tyrklandi í gær.

Í fréttaskýringu Al Jazeera segir að Varnarsveitir Kúrda hafi verið lykilbandamaður Bandaríkjamanna í baráttunni gegn vígamönnum Ríkis  íslams í Írak og Sýrlandi.

Tyrknesk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt þessa samvinnu og segja YPG systursamtök kúrdíska verkamannaflokksins (PKK) sem hefur áratugum saman barist fyrir sjálfstæði Kúrda í austurhluta Tyrklands. Þessu neita forsvarsmenn YPG.

Haukur Hilmarsson. Myndin er tekin úr myndskeiði sem útlendingahersveitin International …
Haukur Hilmarsson. Myndin er tekin úr myndskeiði sem útlendingahersveitin International Freedom Battalion birti fyrir helgi.

Í frétt Reuters um ástandið í Afrin segir að þó að Varnarsveitir Kúrda hafi hingað til verið andstæðingar stjórnar Assads í Sýrlandi hafi þeir beðið stjórnarherinn um aðstoð til að verjast innrás Tyrkja. Í síðastas mánuði hafi vopnaðar sveitir, með tengsl við Sýrlandsher, komið til Afrin-héraðs til að styðja YPG.

Yfirráðasvæði YPG við landamærin að Tyrklandi var stórt, m.a. náði það yfir víðfeðmt landsvæði sem þeir náðu af vígamönnum Ríkis íslams með hernaðarlegum stuðningi Bandaríkjamanna. Síðustu daga hafa hins vegar tyrkneskar hersveitir í bandalagi við Frelsisher Sýrlands náð völdum í mörgum bæjum og þorpum við landamærin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert