Mikil svifryksmengun í morgun

Styrkur svifryks var hár í morgun samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut og Eiríksgötu í Reykjavík um það leyti sem fólk var á leið til vinnu sinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Þannig var hálftímagildi svifryks við Grensásveg 173 míkrógrömm á rúmmetra klukkan tíu í morgun, við mælistöðina við Hringbraut var hálftímagildið á sama tíma 242 míkrógrömm á rúmmetra og við Eiríksgötu 64 míkrógrömm á rúmmetra.

Vakin er athygli á því að sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir köfnunarefnisdíoxíð 75 míkrógrömm á rúmmetra. Köfnunarefnisdíoxíð hafi einnig mælst nokkuð hátt.

Bent er enn fremur á að hægur vindur sé þessa dagana, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu fyrr en miðvikudag. Þeim sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börnum er ráðlagt að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna þegar svona háttar.

Styrkur svifryks er núna á öllum mælingarstöðvum vel innan heilsuverndarmarka en búist er við að hann aukist síðan aftur á álagstímanum síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert