Ólétt að fjórða barni og dæmd í 16 mánaða fangelsi

Málið var rekið fyrirHéraðsdómi Reykjaness
Málið var rekið fyrirHéraðsdómi Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Kona á fertugsaldri sem ólétt er að sínu fjórða barni var fyrir helgi dæmd í 16 mánaða fangelsi, þar af 14 mánuði skilorðsbundið, fyrir 59 milljón króna fjárdrátt. Saksóknari hafði farið fram á 14 mánaða fangelsi yfir henni. Játaði konan brot sín fyrir dómi, en í dómi málsins segir ljóst að hún hafi dregið sér mjög háar fjárhæðir nánast óslitið til fjölda ára og ekkert endurgreitt.

Í dóminum segir að í ljósi þess hversu stórfelld brotin eru þyki ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti.

Konan var framkvæmdastjóri einka­hluta­fé­lags í eigu henn­ar og móður sam­býl­is­manns henn­ar. Voru fjár­mun­irn­ir færðir á reikn­inga í  eigu henn­ar og sam­býl­is­manns henn­ar, tekn­ir út í reiðufé og einnig ráðstafað í ým­is­kon­ar neyslu á ár­un­um sem um ræðir.

Eft­ir að fyr­ir­tækið var úr­sk­urðað gjaldþrota árið 2014 milli­færði kon­an í 14 skipti sam­tals 4,4 millj­ón­ir af banka­reikn­ing þess yfir á sína per­sónu­lega reikn­inga.

Sam­kvæmt ákæru máls­ins nam fjár­drátt­ur­inn 1,5 millj­ón­um árið 2007 og rúm­lega 4 millj­ón­um árið 2008. Árið 2009 var hann aðeins 20 þúsund og árið 2010 um 100 þúsund, en fór svo á flug að nýju árið 2011 þegar hann var 7,7 millj­ón­ir. Árið 2012 er svo ákært fyr­ir 13,8 millj­óna fjár­drátt, árið 2013 fyr­ir 17,2 millj­ón­ir og árið 2014 fyr­ir 14,9 millj­ón­ir.

Kon­an notaði de­bet­kort fyr­ir­tæk­is­ins meðal ann­ars til að kaupa skyndi­bita í fjöl­mörg skipti, af­borg­an­ir af mótor­hjóli, eldsneyti, mat­vöru, leik­föng og fatnað. Þá var það notað til að greiða fyr­ir ým­iss út­gjöld er­lend­is, eins og hót­elg­ist­ingu, fata­kaup og veit­ingastaði.

Kon­an var auk þess fundin sek um að hafa látið und­ir höfuð leggj­ast að færa lög­boðið bók­hald frá ár­inu 2011 til 2014, en sam­kvæmt árs­reikn­ingi árs­ins 2010 kom upp eld­ur í starfstöð fyr­ir­tæk­is­ins og töpuðust við það öll bók­halds­gögn fé­lags­ins. Rak fé­lagið meðal ann­ars bón­stöð og þá stundaði það flutn­inga ým­iss kon­ar. Voru tekj­ur fé­lags­ins það ár aðeins skráðar sam­kvæmt virðis­auka­skatt­skil­um.

Sam­býl­ismaður kon­unn­ar er ekki ákærður í mál­inu, en fram kem­ur í ákær­unni að kon­an hafi milli­fært yfir 16 millj­ón­ir á reikn­ing hans á tíma­bil­inu sem um ræðir.

Við þingfestingu meðferð málsins fyrir dómi sagði saksóknari ljóst að brotin hefðu verið framin af hreinum ásetningi og ekkert hafi verið greitt til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert