„Ótrúlegir íþróttamenn“ í Skólahreysti

Skólahreysti í íþróttahöllinni á Akureyri. Mynd úr safni.
Skólahreysti í íþróttahöllinni á Akureyri. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það eru ótrúlegir íþróttamenn sem taka alltaf þátt. Maður heldur að metin sé orðin svo hrikaleg að það sé ekki hægt að bæta þau en þá halda krakkarnir áfram að slá metin. Þau eru ótrúleg,“ segir Andrés Guðmundsson sem stendur að keppninni Skólahreysti ásamt Láru Berglindi Helgadóttur.

Fyrsta keppni í Skólahreysti á þessu ári fer fram á fimmtudaginn næsta þegar grunnskólar í Reykjanesbæ eigast við. Þetta er í 14. skiptið sem keppni grunnskólanna fer fram og í ár taka 105 grunnskólar á öllu landinu þátt. Fjórir nemendur úr 9. og/eða 10. bekk skipa liðið, tvær stelpur og tveir strákar. 

Hjónin Andrés Guðmundsson og Lára Berglind Helgadóttir standa saman að …
Hjónin Andrés Guðmundsson og Lára Berglind Helgadóttir standa saman að Skólahreysti. mbl.is/Golli

„Það sem ég er stoltastur af er að ná að virkja krakka sem hafa aldrei tekið þátt í skipulögðu íþróttastarfi,“ segir Andrés. Um 10% af krökkunum sem keppa í Skólahreysti æfa ekki íþróttir. Markmiðið er að ná að virkja enn fleiri, segir Andrés.

Andrés hefur staðið fyrir skólahreysti í öll þessu ár. Hann viðurkennir að oft sé hann orðinn talsvert þreyttur þegar mótin standa yfir sem eru ákaflega krefjandi. Fyrir utan keppnina sjálfa þarf að setja upp brautirnar, taka þær niður og keyra með þær á næsta stað. „Ég hugsa oft með mér af hverju ég er í þessu? En svo skapast einhver svakaleg orka og kraftur þegar allir krakkarnir eru komnir saman að leggja sig fram og gera sitt besta og þetta verður alveg æðislegt,“ segir Andrés.   

Áhuginn á Skólahreysti hefur aukist á hverju ári. Hátt í 10 stórar brautir með öllu eru á höfuðborgarsvæðinu og 20 litlar brautir eru víðs vegar við skóla landsins. Flestar þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu. Á hverju ári eru lagðar nýjar brautir við skólana. 

Í Skólahreysti er keppt í: Upphífingar (strákar), armbeygjur (stelpur), dýfur (strákar), hreystigreip (stelpur) og hraðaþraut (strákar og stelpur). 

Undanriðlar eru tíu talsins og eru þeir svæðisbundnir, þ.e. skólar frá sama landssvæði
keppa innbyrðis sín á milli. 12 skólar keppa í úrslitum Skólahreysti. Stigahæsti skólinn úr hverjum riðli kemst áfram í úrslitakeppnina og tveir stigahæstu skólarnir í öðru sæti undankeppninnar vinna sér rétt til að taka þátt í úrslitum Skólahreysti.

Skólahreysti árið 2014.
Skólahreysti árið 2014. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert