Skiluðu sér ekki um borð

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta kemur fyrir endrum og sinnum en mjög sjaldan,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Töluverðar tafir urðu á flugi Icelandair frá Heathrow í London í gærkvöldi vegna þess að farþegar sem áttu bókað far með vélinni skiluðu sér ekki um borð.

Samkvæmt vef Heathrow átti flugvélin að fara í loftið klukkan 20.30 en fór ekki í loftið fyrr en 21.49, eða tæpum 80 mínútum síðar.  Vélin átti að lenda klukkan 23.40 í Keflavík en lenti klukkan 01.17, samkvæmt Kefairport.is.

„Svo mikil vanvirðing“

Samkvæmt einum flugfarþeganna um borð, Ragnari Vigni, bárust farþegum upplýsingar um seinkunina á fluginu í tölvupósti eftir að þeir voru komnir inn í vélina.

Hann segir að þegar farþegar voru sestir um borð í vélina voru nöfn tveggja farþega kölluð upp og þeir beðnir um að gefa sig fram við áhöfn. Tilkynningin var endurtekin stuttu síðar, án þess að farþegarnir létu sjá sig.

Skömmu seinna var tilkynnt að afferma þyrfti töskur fjögurra farþega sem áttu bókað sæti og höfðu innritað sig í flugið á Heathrow en ekki skilað sér um borð.

Ragnar er ósáttur við seinkunina og hefði viljað sjá skjótari viðbrögð vegna þeirra sem skiluðu sér ekki um borð og flutningsins á töskunum þeirra.

Einnig segir hann að farþegum hafi ekki verið boðnar neinar veitingar til að bæta upp fyrir biðina, ekki einu sinni vatnsglas.

„Mér fannst þetta svo mikil vanvirðing, að minnsta kosti hjá þessum tveimur sem voru kallaðir upp en mættu ekki,“ segir Ragnar en tekur þó fram að hann viti ekki hvað varð til þess að þeir skiluðu sér ekki um borð.   

„Þetta er leiðindamál. Ég var í fínni helgarferð og svo endar þetta svona,“ segir hann og bætir við: „Það er leiðinlegt að lenda í svona löguðu út af því að einhverjir létu ekki sjá sig.“

Frá Heathrow-flugvelli í London.
Frá Heathrow-flugvelli í London. AFP

Sex mættu ekki um borð

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar voru alls sex farþegar sem mættu ekki um borð í vélina þrátt fyrir að hafa verið innritaðir. Hann segir alþjóðlegar öryggisreglur kveða á um að afferma skuli töskur þeirra sem mæta ekki um borð.

Við aðstæður sem þessar þurfi að kalla til mannskap og stundum finnast töskurnar fljótt en stundum þarf að fara í gegnum allan farangurinn til að finna þær.

Guðjón kveðst ekki hafa upplýsingar um hvers vegna farþegarnir mættu ekki í vélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert