Vara við snörpum vindhviðum

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi vegna …
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi vegna snarpra vindhviða. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Búast má við snörpum vindhviðum í Öræfum, Mýrdal og undir Eyjafjöllum, einkum í nótt og fram eftir morgundegi, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi.  

Í ábendingum veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar kemur fram að gera má ráð fyrir byljóttum vindi og hviðum allt að 35-40 metrum á sekúndu undir Austur-Eyjafjöllum og á Reynisfjalli, sem og í Öræfum við Sandfell og Svínafell. Verstar verða hviðurnar á milli klukkan 6 í fyrramálið og fram undir hádegi. 

Í nótt má gera ráð fyrir austan- og norðaustanátt á landinu, víða 8-13 metrum á sekúndu, en 15-23 metrum á sekúndu syðst á landinu og í Öræfum í nótt og fram eftir morgundegi.

Það verður bjart veður um landið vestan- og norðanvert, en skýjað og dálítil él eða slydduél suðaustan- og austanlands. Á morgun bætir í úrkomu, einkum síðdegis.

Frostlaust verður yfir daginn á Suður- og Vesturlandi, en annars staðar mun frost ná allt að 10 stigum, kaldast verður í innsveitum fyrir norðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert