Vill upplýsingar um greiðslur til ráðherra

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn á Alþingi til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem óskað er eftir upplýsingum um greiðslur til ráðherra og ráðuneytisstjóra og vinnuferða ráðherra til annarra landa.

Þingmaðurinn óskar eftir upplýsingum um fjölda vinnuferða núverandi ráðherra og ráðuneytisstjóra til útlanda og ráðherra sem áður fóru með viðkomandi málaflokk aftur til ársins 2006 og hversu háar árlegar greiðslur dagpeninga hafi verið vegna þessara ferða.

Einnig spyr Björn Leví um árlegar greiðslur vegna hótelgistingar og annars ferðakostnaðar, í hversu mörgum tilfelli ekið hafi verið út á flugvöll í bifreiðum ráðuneytisins og í hve mörgum tilfellum ferðakostnaður vegna þess hafi verið endurgreiddur.

Þá spyr þingmaðurinn að því hversu háar árlegar endurgreiðslur ráðherra og ráðuneytisstjóra vegna styrkja og hlunninda erlendis hafi verið sem eigi samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar að koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum.

Birtar voru á vef Alþingis á föstudaginn upplýsingar um breytilegar greiðslur til þingmanna miðað við reikninga sem skilað var inn eftir áramót til viðbótar við fyrri upplýsingar um fastar greiðslur til þeirra. Ekki komu fram breytilegar greiðslur til ráðherra þar sem þær greiðslur koma frá viðkomandi ráðuneytum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka