12 mánaða fangelsi fyrir tungubit

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag ástralska konu, sem hefur verið búsett hér á landi í nokkurn tíma, í tólf mánaða fangelsi fyrir stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi. Níu mánuðir af dómnum eru skilorðsbundnir.

Konan beit 2,5 sentímetra bút af tungu eiginmanns síns í nóvember í fyrra. Konan þarf einnig að greiða eiginmanninum 1,2 milljónir króna í miskabætur.

Konan hefur sætt farbanni vegna málsins samfleytt frá 1. nóvember.

Frétt mbl.is: Missti stóran bita af tungunni

Í dómi héraðsdóms kemur meðal annars fram að manninum hafi reynst erfitt að mynda ákveðin hljóð eftir að hafa misst stóran bita af tungunni. Maðurinn hitti talmeinafræðing á Landspítala sem metur það svo að tungan muni aldrei ná sér að fullu og að maðurinn muni eiga erfitt með að segja L-hljóð. Tungan er verulega stytt og hefur það áhrif á tal mannsins.

Konan var einnig sakfelld fyrir árás á aðra konu og gert að greiða henni 400 þúsund krónur í skaðabætur. 

Hún neitaði sök í báðum árásum og lýsti því fyrir dómnum að eiginmaður hennar og konan hafi veist að henni með líkamlegu ofbeldi og hún hafi gripið til neyðarvarnar gagnvart árásinni. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að konan sé sakfelld fyrir alvarlega líkamsárás og að eiginmaður hennar muni glíma við afleiðingar hennar um ókomna tíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert