Andlát: Sverrir Hermannsson

Sverrir Hermannsson.
Sverrir Hermannsson.

Sverrir Hermannsson, fyrrverandi ráðherra og bankastjóri, lést á hjúkrunarheimilinu Mörk aðfaranótt mánudagsins, 88 ára að aldri.

Sverrir fæddist á Svalbarði í Ögurvík 26. febrúar 1930, sonur hjónanna Hermanns Hermannssonar, útvegsbónda, og Salóme Rannveigar Gunnarsdóttur, húsmóður.

Sverrir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1951 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1955. Hann starfaði m.a. sem skrifstofustjóri Verslunarmannafélags Reykjavíkur, 1956-1960, og fulltrúi hjá blaðaútgáfunni Vísi hf. 1960–1962. Þá var hann formaður og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra verslunarmanna frá stofnun þess 1957 til 1972.

Hann var einnig forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins 1975 til 1983. Þá starfaði hann að útgerðarmálum með bræðrum sínum og var stjórnarformaður útgerðarfélagsins Ögurvíkur 1970 til 1987. Sverrir var varaþingmaður Austurlands frá 1964 til 1968 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þingmaður Austurlands fyrir flokkinn frá árinu 1971 til ársins 1988. Hann gegndi embætti iðnaðarráðherra 1983 til 1985 og menntamálaráðherra 1985 til 1987. Þá var hann forseti neðri deildar Alþingis 1979 til 1983.

Sverrir varð bankastjóri Landsbanka Íslands árið 1988 og gegndi því starfi til 1998. Það ár stofnaði hann Frjálslynda flokkinn og var formaður þess flokks til 2003. Hann var kjörinn á Alþingi á ný árið 1999 og var þingmaður Reykvíkinga fyrir Frjálslynda flokkinn til 2003.

Eiginkona Sverris var Greta Lind Kristjánsdóttir, sem lést árið 2009. Þau eignuðust fimm börn: Huldu Bryndísi, Kristján, Margréti Kristjönu, Ragnhildi og Ásthildi Lind. Fósturdóttir er sonardóttirin Greta Lind. Önnur barnabörn eru 12 talsins og langafabörnin eru 6.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert