Auðveldar börnum að leysa ósætti

Börn sem höfðu kynnst verkefninu Vinátta áttu auðveldara með að …
Börn sem höfðu kynnst verkefninu Vinátta áttu auðveldara með að leysa ágreiningsefni sem komu upp. mbl.is/Árni Sæberg

Þau börn sem höfðu tekið þátt í verkefninu Vinátta, sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti fyrir leikskóla og yngstu bekki grunnskóla, léku sér betur saman og áttu auðveldara með að takast á við stríðni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrstu þremur prufurannsóknum á innleiðingu vináttuverkefnisins sem Katrín Johnson, verkefnastjóri hjá Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, kynnti á námstefnu um Vináttu í dag.

Í heildina eru niðurstöður rannsóknarinnar mjög jákvæðar um innleiðingu verkefnisins. Starfsmenn leikskóla sáu greinilegan mun á hegðun barnanna til batnaðar þar sem verkefnið var notað. Bæði starfsmenn og börn voru meðvitaðri um einelti og fengu í hendur ný verkfæri til að takast á við einelti og bregðast við ósætti í hópnum. Fleiri börn sýndu hugrekki og voru reiðubúnari til að verja vini sína ef þeim var strítt eða þeir lagðir í einelti.

Í rannsókninni var einnig bent á að vinna þyrfti áfram með verkefnið og halda áfram að bæta það. Verkefnið er danskt að uppruna og hóf göngu sína á Íslandi haustið 2014 og nú eru um 40% leikskóla að vinna með það auk þess hófu 15 grunnskólar vinnu í tilraunaskyni með verkefnið síðasta haust.

Útgáfa Vináttu er í samstarfi við Barnaheill, Red barnet í Danmörku og Mary Fonden sem hafa þróað efnið og gefið út þar. Í haust verður tilbúið Vináttuefni fyrir allra yngstu börnin hér á landi frá 0 til 3 ára. Leikskólar og dagforeldrar munu geta nýtt sér það.    

Þessi niðurstaða rímar við sambærilegar niðurstöður um þróun verkefnisins í Danmörku sem þær Christina Stær Mygind, frá Mary Fonden, og Lena Lykkegaard, frá Red barnet í Danmörku, greindu frá á námstefnunni í dag. Verkefnið er 10 ára gamalt en það hóf göngu sína í Danmörku  árið 2007. Verkefnið hefur verið innleitt í 50% af leikskólum Danmörku og 40% grunnskóla landsins.

Hvernig tölum við um annað fólk eins og samstarfsfélaga?

Í grunninn er unnið með fjóra þætti í verkefninu, þetta eru: umburðarlyndi, virðing, umhyggja og hugrekki. Dönsku börnin sem og þau íslensku eru duglegri við að takast á við stríðni ef unnið er markvisst með þeim í gegnum verkefnið Vináttu. Þau eiga betra með að tjá tilfinningar sínar, skilja tilfinningar annarra barna og búa yfir góðri tilfinningagreind.

Einn mikilvægur þáttur í því að uppræta einelti er að líta í eigin barm og spyrja hvernig við, fullorðna fólkið, tölum um annað fólk. „Ef við ætlum að breyta þessu þurfum við sjálf oft að breyta um hugsunarhátt og það er erfitt. Hvað er til dæmis góður vinnufélagi? Talar hann um aðra við aðra eða talar hann við viðkomandi?“ segir Christina Stær Mygind.

Þær bentu á að til að bæta árangurinn væri mikilvægt að hafa sem flesta starfsmenn og yfirmenn með í verkefninu sem og foreldra.

Á vefsíðu Barnaheilla er hægt að kynna sér Vináttu frekar. 

Barnaheill - save the children. Námstefna um Vináttu á Grand …
Barnaheill - save the children. Námstefna um Vináttu á Grand hótel í Reykjavík. Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti í leik og grunnskólum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert