Gul viðvörun á Suður- og Suðausturlandi

Búast má við snörpum vindhviðum í Öræfum, Mýrdal og undir Eyjafjöllum fram eftir degi, segir í athugasemd veðurfræðings Veðurstofunnar en gul viðvörun er á Suðurlandi og Suðausturlandi.

„Í dag er áfram búist við hvassri austanátt með nokkuð byljóttu veðri undir Eyjafjöllum, Mýrdalsjökli og í Öræfum. Þá er útlit fyrir éljaloft austantil en heldur meiri úrkomu síðdegis og í kvöld, líklega slyddu á láglendi en snjókomu til fjalla.

Helstu breytingar næstu daga eru þó þær að mildara loft færist smám saman til norðurs yfir landið, og með því aukin úrkoma á sunnanverðu landinu þar sem hefur verið mjög þurrt undanfarið.

Á morgun gæti hiti náð 6 stigum víða þó að  enn verði vægt frost á Norðurlandi en á fimmtudag ætti hlýja loftið að hafa yfirhöndina á öllu landinu og þá er búist við einhverri rigningu í flestum landshlutum og nokkurri snjóbráð, mest suðaustan- og austanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Fram undir hádegi í dag má búast við byljóttum vindi og hviðum allt að 35-40 m/s undir A -Eyjafjöllum, og á Reynisfjalli. Einnig í Öræfum við Sandfell og Svínafell, segir á vef Vegagerðarinnar.

Vegir á Suður- og Suðvesturlandi eru að mestu greiðfærir en hálkublettir eru þó á köflum á Suðurnesjum. Á Vesturlandi eru vegir að mestu greiðfærir í Borgarfirði en hálkublettir eða hálka á Snæfellsnesi og í Dölum. Það er hálka, hálkublettir á vegum á Vestfjörðum.

Vegir eru nánast auðir í Húnavatnssýslu en hálkublettir á Þverárfjalli og hálka eða hálkublettir víða í Skagafirði.  Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum. Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi en greiðfært er að mestu með suðausturströndinni.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan- og norðaustanátt, víða 8-13 m/s, en 15-23 syðst á landinu og í Öræfum fram eftir degi og aftur síðdegis á morgun. Skýjað með köflum um landið vestan- og norðanvert, en skýjað og dálítil él eða slydduél suðaustan- og austanlands. Bætir í úrkomu síðdegis, snjókoma eða slydda í kvöld en síðan rigning á láglendi. Allvíða frostlaust yfir daginn á Suður- og Vesturlandi, annars frost að 10 stigum, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Hlýnar í flestum landshlutum á morgun, og hiti 1 til 6 stig en áfram vægt frost á Norðurlandi og dálítil él um tíma.

Á miðvikudag:

Austan- og norðaustanátt, víða 8-15 m/s. Slydda eða rigning með köflum, einkum sunnan- og austanlands og hiti 1 til 6 stig. Dálítil snjókoma um tíma norðantil á landinu og vægt frost þar. 

Á fimmtudag:
Austlæg átt 5-10, en 10-15 með suðurströndinni. Lengst af rigning en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst. 

Á föstudag og laugardag:
Fremur hæg suðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað víðast hvar og dálítil væta en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti breytist lítið. 

Á sunnudag og mánudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt. Kólnar í veðri og frystir með lítilsháttar éljum um landið norðaustanvert en mildara og úrkomulítið sunnan- og vestanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert