Hópur skipaður um framtíð skíðasvæða

Frá Bláfjöllum.
Frá Bláfjöllum. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, hefur samþykkt að skipa sérstakan verkefnahóp til að vinna áfram með drög að framtíðarsýn um uppbyggingu og rekstur skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins til ársins 2030.

Þetta kemur fram í tilkynningu

Hlutverk hópsins er að móta ítarlega tillögu að aðgerða- og framkvæmdaáætlun sem byggi á drögum að framtíðarsýn fyrir stjórn SSH sem leggja þarf fyrir sveitarfélögin til afgreiðslu vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 og gerð þriggja ára áætlana, samkvæmt því sem kemur fram í erindisbréfi verkefnahópsins

Samhliða skal hópurinn greina hvaða breytingar eru nauðsynlegar á núverandi samstarfssamningi sveitarfélaganna um rekstur skíðasvæðanna vegna framkvæmda og reksturs sem af tillögunum leiðir.

Krakkar á skíðum í Bláfjöllum.
Krakkar á skíðum í Bláfjöllum. mbl.is/Eggert

Fullmótaðar niðurstöður í lok ágúst

Á haustmánuðum 2017 fór fram stefnumótun um framtíðarsýn skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu. 

Í febrúar var stefnumótunin kynnt fyrir stjórn SSH.

Stefnumótunin var í framhaldinu kynnt í borgarráði Reykjavíkur og bæjarráðum hinna fimm sveitarfélagana sem sameiginlega eiga og reka skíðasvæðin, að því er segir í erindisbréfinu.

Einnig var fundað með Skíðaráði Reykjavíkur og aðilum sem eiga hagsmuna að gæta á skíðasvæðunum.

Skipun verkefnahópsins var svo ákveðin á fundi stjórnar SSH í síðustu viku.

Verkefnahópinn skipa sviðsstjóri ÍTR, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar, fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar og framkvæmdastjóri SSH.

Hópurinn skal skila niðurstöðum og tillögum til stjórnar SSH í tveimur áföngum. Annars vegar áfangaskýrslu fyrir lok maí og fullmótuðum niðurstöðum eigi síðar en í lok ágúst næstkomandi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkefni hópsins:

  1. Samstarf við Kópavogsbæ vegna áframhaldandi vinnu deiliskipulag fyrir skíðasvæðin í Bláfjöllum og yfirferð á stöðu deiliskipulagsvinnu í Skálafelli.
  2. Gerð ítarlegrar framkvæmdaáætlunar og tillögu að forgagnsröðun og áfangaskiptingu og mat á áhrifum á rekstur skíðasvæðanna. Í þeirri vinnu verði m.a. horft til nauðsynlegra mótvægisaðgerða v. vatnsverndar.
  3. Gerð tillögu að nýjum samstarfssamningi um rekstur skíðasvæðanna í samræmi við niðurstöður í lið 1 og lið 2.

Heimilt er að kalla til utanaðkomandi ráðgjafa vegna ofangreindra verkefna eftir því sem þörf er á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert