Leysir Guðmund af vegna Hóla í Öxnadal

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Meðal þess sem rætt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var tillaga Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til forseta Íslands um að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verði sett til þess að fara með mál sem heyra undir Guðmund Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra og varða tillögu um friðlýsingu hluta jarðarinnar Hóla í Öxnadal.

Jörðin sem um ræðir er í eigi Sifjar Konráðsdóttur lögmanns og eiginmanns hennar sem óskuðu eftir friðlýsingunni til þess að koma í veg fyrir lagningu á Blöndulínu 3 um svæðið. Sif var til skamms tíma aðstoðarmaður Guðmundar Inga en í því starfi lét hún hafa eftir sér að eignarhald hennar ylli ekki vanhæfni hans til þess að taka ákvörðun í málinu.

Guðmundur sagði Sif upp störfum um miðjan síðasta mánuð í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um að hún hefði verið kærð til Lögmannafélagsins árið 2008 fyrir að greiða barni, sem hún starfaði sem réttargæslumaður fyrir, ekki bætur sem dæmdar höfðu verið í Hæstarétti. Sif bað skjólstæðinga sína í kjölfarið afsökunar í kjölfar starfslokanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Svandís hleypur í skarðið fyrir Guðmund en henni hefur einnig verið falið að taka ákvarðanir varðandi fjögur önnur mál sem tengjast Landvernd en Guðmundur var framkvæmdastjóri samtakanna áður en hann varð ráðherra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert