Treysta því að allir leggi sitt af mörkum

Fundurinn fór fram í utanríkisráðuneytinu síðdegis í dag.
Fundurinn fór fram í utanríkisráðuneytinu síðdegis í dag. mbl.is/Eggert

„Við fengum þau svör að það væri verið að vinna af alefli í því að finna hann og vonum að það sé rétt. Hingað til var ekki neitt búið að vera að frétta og við vonum það og treystum því að það séu allir að leggja sitt af mörkum til þess að þetta leysist,“ segir Borghildur Hauksdóttir, móðursystir Hauks Hilmarssonar, í samtali við mbl.is eftir fund aðstandenda Hauks með utanríkisráðherra í dag.

Hún segir aðstandendur hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að upplýsa málið frá kúrdísku hliðinni og frá Sýrlandi. 

„Við höfum í rauninni fengið öll svör þaðan sem við teljum okkur geta fengið að svo stöddu. Nú er bara Tyrkland eftir og við höfum verið að reyna að treysta á stjórnvöld, okkar stjórnvöld, til að sinna þeim hluta. Það hefur gengið hægar en við áttum von á, en „bjúrókrasían“ er erfið og við skiljum það. Vonandi koma bara einhver svör núna á næstu dögum,“ segir Borghildur og bætir því við að fyrirheit hafi verið gefin á fundinum um að ráðuneytið myndi gera allt sem í þess valdi stæði til að svo yrði.

Ræddi við utanríkisráðherra Tyrkja

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ráðuneytið vinna að því með öllum tiltækum ráðum að hafa uppi á Hauki, sem talið er að hafi látið lífið í vopnuðum átökum Tyrkja og hersveita Kúrda í lok febrúarmánaðar. Haft hefur verið samband við tyrknesk yfirvöld eftir ýmsum diplómatískum leiðum, að sögn Guðlaugs.

„Það er stóra málið og það er forgangsmálið,“ segir ráðherra, sem átti í gær samtal við utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlüt Cavusoglu, og bað um liðsinni við leitina að Hauki.

„Málaleitan mín kom honum ekki á óvart. Hann hefur fundið fyrir því að við höfum með öllum leiðum verið að reyna að hafa uppi á Hauki. Hann tók málaleitaninni vel, svo við skulum sjá hvað kemur út úr því,“ segir Guðlaugur Þór.

Aðstandendur mæta til fundar við ráðherra í dag.
Aðstandendur mæta til fundar við ráðherra í dag. mbl.is/Eggert

Tyrkland er Atlantshafsbandalagsríki rétt eins og Ísland og hóf hernaðaraðgerðir gegn Kúrdum í Afrín-héraði í janúar síðastliðnum, sem helst mætti líkja við þjóðhreinsanir.

Guðlaugur Þór segir að afstaða Íslands gagnvart þessum aðgerðum Tyrkja hafi legið fyrir síðan þá.

„Við höfum gagnrýnt þennan framgang, gerðum það þegar það hófst en það tengist ekki þessu máli,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert