Sungið fyrir bættum sætum

Anna Birgis og Magnús Ragnarsson undirbúa tónlistarhátíðina um helgina.
Anna Birgis og Magnús Ragnarsson undirbúa tónlistarhátíðina um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Konur í Langholti, Kvenfélag Langholtssóknar, standa fyrir tvennum styrktartónleikum í Langholtskirkju klukkan 17 og 20 sunnudaginn 18. mars nk. til þess að safna fyrir endurnýjun á sætum í kirkjunni. Fram koma kórar og sjálfstæðir tónlistarmenn að auki.

Anna Birgis, formaður Kvenfélagsins, segir að félagið hafi verið með fjáröflunarátak tvisvar á ári, vorhátíð og basar á haustin, og nú hafi þurft að bregðast við lélegri stöðu sætanna í kirkjunni. „Kirkjan hefur alla tíð verið mikið tónlistarhús og með það í huga ákváðum við, það er kvenfélagið, sóknarnefndin, prestarnir, listafélagið og organistinn Magnús Ragnarsson, listrænn stjórnandi tónlistarstarfs í Langholtskirkju, að fara í þessa fjáröflun.“

Tónlist og kórastarf hefur verið miðpunktur safnaðarstarfsins og hljómburður kirkjunnar þykir einstakur. Í kórum kirkjunnar eru samtals yfir 200 félagar. Kór Langholtskirkju hefur vakið athygli frá stofnun 1953 eða í 65 ár og kórskóli kirkjunnar hefur verið starfræktur frá 1991.

„Það er mikil gróska í tónlistarlífinu hérna og kirkjan er mikið notuð fyrir tónleika af mismunandi tagi,“ segir Magnús Ragnarsson. Hann bendir á að góður ómtími sé í kirkjunni, hún henti sérstaklega vel fyrir allan söng og búi auk þess yfir sérstökum flygli og glæsilegu orgeli. Sjálfur hafi hann verið með marga tónleika í Langholtskirkju og það sé alltaf skemmtilegt. Gildi þá einu hvort flutt séu klassísk verk eða söngur. Í því sambandi bendir hann á að sl. fimmtudag hafi verið tónleikar með einsöngvurum sem tengjast kórum kirkjunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert