Þingmönnum Bjartar framtíðar hótað

Theódóra segir að eftir á að hyggja hefði hún átt …
Theódóra segir að eftir á að hyggja hefði hún átt að kæra hótanirnar til lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Theódóra Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, segist hafa verið orðin hrædd og litið í kringum sig þegar hún gekk út úr Alþingishúsinu eftir að hún fékk nafnlaus símtöl með hótunum í kjölfar þess að flokkurinn ákvað að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn síðasta haust. Þetta kom fram í viðtali við Theódóru í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Við fengum allskonar símtöl, fyrir og eftir slit. Við fengum mjög óæskileg símtöl. Það var verið að pikka í okkur. Sérstaklega eftir að við ákváðum að þetta væri ekki að ganga, að við gætum ekki tekið þátt í þessu út frá okkar prinsippum og við værum ekki að fara að vinna þarna í fjögur ár undir þessu.“

Theódóra sagði símtölin hafa verið ógnandi og henni hafi meðal annars verið sagt að hafa sig hæga því það væru barnaníðingar innan Bjartar framtíðar. Sagði hún Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmann flokksins, hafa fengið svipuð símtöl. En mál er varðaði uppreist æru barnaníðings var kornið sem fyllti mælinn í stjórnarsamstarfinu, að mati Bjartar framtíðar.

Ofsafengin viðbrögð

„Ég sinnti mínu starfi og kláraði þetta en ákvað síðan að draga mig út úr þessari umræðu því þetta hafði þannig áhrif að ég var farin að líta í kringum mig þegar ég labbað út úr þinghúsinu.“ Theódóra sagði að eftir á að hyggja hefði hún átt að kæra þessar hótanir og láta lögreglu rannsaka málið.

„Við ákváðum að draga ekki athyglina að þessum málum á þessum tímapunkti,“ sagði hún og átti þar við sig og Nichole. „Við ákváðum að gera það ekki og segja ekki frá því, en hvort það hafi verið rétt eða ekki veit ég ekki. En viðbrögðin, hvort sem þau voru frá þessum flokkum eða umhverfinu sem slíku, þau voru svo ofsafengin og komu af svo miklum krafti og miklu valdi að við áttum aldrei séns í þessari umræðu.“

Sagði hún flokkinn hafa verið fordæmdan fyrir ákvörðun sína að slíta samstarfinu og væri að uppskera það núna. „Við sitjum uppi með þetta og það er bara allt í lagi. Við erum ekki að stunda þessa brjálæðislegu flokkspólitík eins og fjórflokkurinn gerir, við þurfum ekki að viðhalda okkur. Við þurfum ekki að vera til af því við erum stofnun.“

Hótað og yfirheyrð af samstarfsflokki

Theódóra sagði þingmönnum Bjartar framtíðar einnig hafa verið hótað af Sjálfstæðisflokknum áður en til stjórnarslita kom. Meðal annars þegar Samfylkingin lagði fram frumvarp um breytingar á útlendingalögum. „Þá var það alveg ljóst að ef við ætluðum okkur að styðja það mál þá væri þessi ríkisstjórn sprungin.“ Spurð út í það hvort stjórnarslitum hafi verið hótað sagði Theódóra: „Já, það var allavega gert.“

Þá hafi þingmenn flokksins, Theódóra og Nicole verið kallað til þriðju gráðu yfirheyrslu hjá Sjálfstæðisflokknum. Sagði hún Sjálfstæðisflokkinn hafa reynt að draga þau inn í ástandið eins það var. Þau hafi hins vegar viljað breytingar, breytt vinnubrögð.

„Það að það var talað yfir hausamótunum á okkur og okkur hótað þegar við komum með eitthvað sem við vorum til í að gera öðruvísi. Eitthvað sem við höfðum frumvæði að, þá vorum við bara svolítið tekin fyrir.“

Björt framtíð mun ekki bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum í vor en Björt Ólafsdóttir, formaður flokksins, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að árið hefði verið flokknum erfitt og að ákveðinnar mæðu gætti innan flokksins. Það hefur hins vegar verið staðfest að flokkurinn býður fram í Kópavogi, þar sem Theódóra er oddviti. Verið er að skoða með framboð í Hafnarfirði að hennar sögn og flokkurinn er í samstarfi í Garðabæ og á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert