Þurfum að uppræta kerfi eineltis

Dr. Dorte Marie Söndergaard prófessor í félagssálfræði.
Dr. Dorte Marie Söndergaard prófessor í félagssálfræði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef sá sem leggur í einelti er fjarlægður kemur annar í staðinn. Við þurfum að spyrja hvað það er í menningunni okkar sem ýtir undir þessa hegðun og við þurfum öll að breyta henni,“ segir Dorte Marie Søndergaard, prófessor í félagssálfræði við háskólann í Árósum, á námstefnu um Vináttu sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti fyrir leikskóla og yngstu bekki grunnskóla sem fram fór á Grand hóteli í dag. 

Søndergaard var forstöðumaður rannsóknarhópsins eXbus: Exploring Bullying in School sem hefur rannsakað einelti og útilokun meðal barna og ungmenna. Niðurstöður rannsóknanna er grunnur að hugmyndafræði Vináttu – Fri for mobberi. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði er einelti félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Í erindi sínu kynnti hún rannsóknir sínar á einelti. 

Einelti er alltaf eins í grunninn en það tekur á sig ólíkar myndir. Í einelti felst útilokun, leyfa einhverjum ekki að vera með, slúðra, geyma upplýsingar, uppnefna og beita ofbeldi svo fátt eitt sé nefnt.  

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Morgunblaðið/Hjálmar S. Brynjólfsson

Hún bendir á að í eineltismálum er auðvelt að dæma og skella skuldinni á vandamál heima fyrir, foreldra, veikindi og fleira í þeim dúr en það er ekki alls kosta rétt. „Það skiptir miklu máli hvaða spurninga við spyrjum. Við eigum til dæmis ekki að spyrja: Hvað er að barninu? Hvers vegna er þessi en ekki hinn lagður í einelti? Hvernig er hægt að refsa þeim sem leggur í einelti á einhvern hátt?“ segir Søndergaard.

Í þessu samhengi skiptir það ekki máli að börn séu til dæmis árásargjörn eða „öðruvísi“ því það eitt og sér skiptir ekki máli. Heldur er það kerfið sem viðheldur eineltinu. Í þessu kerfi þar sem einelti þrífst er þörf fyrir að útiloka. Þegar hópar myndast þurfa þeir að hafa einhvern sem þeir útiloka til að halda hópnum saman.

Fullorðna fólkið er ekki undanskilið þessu. Það tekur til dæmis þátt í því að tala illa um náungann. Það eitt og sér er hluti af vandamálinu sem þarf að uppræta og því þurfa allir að líta í eigin barm því við erum hluti af þessu kerfi. 

Höfum öll þörf fyrir að tilheyra

Öll höfum við mikla þörf fyrir að tilheyra öðrum og vera hluti af hóp. Þetta er ein af grunnþörfunum. Barn sem er lagt í einelti vill nálgast hópinn aftur þrátt fyrir að vera hafnað. Það jafnvel hlær að þeim sem leggur það í einelti eingöngu til þess að þóknast þeim í veikri von um að vera tekinn inn í hópinn.

„Það sem vantar inn í þessa mynd er skilningur fullorðinna á þessari sterku þörf fyrir að tilheyra. Hættan sem fylgir því að tilheyra ekki er að vera útilokaður og þegar það gerist þá verðum við kvíðin,“ segir Søndergaard.   

Við þurfum að hlusta betur á börnin og unglingana, reyna að skilja þau og það kerfi sem þau eru að marka sér stöðu innan, segir Søndergaard. Það þarf að líta á þessi mál heildstætt, taka á þeim frá öllum hliðum og fá alla til að taka þátt, börn, foreldra, kennara og samfélagið í heild en ekki bara einblína á börnin sjálf því fullorðna fólkið er fyrirmyndir. 

Hlusta og sýna virðingu

Hún tók sem dæmi eineltismál sem gekk greiðlega að leysa úr með aðferðum Vináttu. Í því var hlustað vel á börnin og þeim sýnd virðing.

Frétt mbl.is: Auðveldar börnum að leysa ósætti

Þeim sem lagði í einelti var leiðbeint, honum var ekki skipað fyrir og bent á að allir höfðu eitthvað fram að færa því við erum öðruvísi. Í hópnum var einnig rætt um leiðtogahlutverkið sem skiptist á milli þeirra og nýjum einstaklingum var boðið að vera með. Í þessu tilviku voru kennararnir meira með nemendunum og tilbúnir að leiðbeina. 

Søndergaard tekur fram að þrátt fyrir mikilvægi Vináttu verkefnisins sem henti mörgum er hægt að nota ýmsar aðferðir. Hins vegar hafa þessar aðferðir sýnt að þær skila árangri. 

Barnaheill - save the children. Námstefna um Vináttu á Grand …
Barnaheill - save the children. Námstefna um Vináttu á Grand hótel í Reykjavík. Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti í leik og grunnskólum mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert