Fleira íþyngjandi en íslensk nöfn

Ármann Jakobsson prófessor.
Ármann Jakobsson prófessor. mbl.is/Hari

„Vitaskuld þarf að endurskoða mannanafnalög reglulega eins og önnur lög. Eins má deila um ýmsa úrskurði mannanefnda seinasta aldarfjórðung. Engin gagnrýni sem fram hefur komið á lögin eða framkvæmd þeirra réttlætir þó svo róttæka aðgerð sem gengur þvert á það mikilvæga hlutverk stjórnvalda og Alþingis að standa vörð um íslenska tungu.“

Þetta segir Ármann Jakobsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, í umsögn um frumvarp að lögum um mannanöfn sem meðal annars kveður á um brottfall ákvæða um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn, að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að nafn megi ekki vera þeim sem ber það til ama. Ennfremur að mannanafnanefnd verði lögð niður og að heimilt verði að taka upp ættarnöfn.

Sá veigamikli annmarki er á frumvarpinu að mati Ármanns að snúið sé baki við lagahefð þess efnis að íslensk mannanöfn skuli vera íslensk og fyrir því ekki færð betri rök en þau að ákvæði þar um sé íþyngjandi. Bendir hann á að það almenna sjónarmið geti átti við allar reglur samfélagsins. Þar á meðal umferðarreglur og stafsetningarreglur.

„Kennitölur og vegabréf eru til dæmis íþyngjandi fyrir marga. Ekki kemur fram í frumvarpinu hvers vegna ákvæði um íslensk mannanöfn sé fremur íþyngjandi en ýmsar aðrar reglur samfélagsins. Þó að í frumvarpsdrögunum sé ákvæði um að léttara verði að breyta um nafn sjálfur á lífsleiðinni er almenna reglan sú að fólk velur sér ekki eigið nafn heldur er það valið af yfirvöldum þeirra, foreldrum og forráðamönnum,“ segir hann ennfremur.

„Fjarlægja hana ekki eins og hvern annan óþarfa“

Ekki verði séð að sú krafa til foreldra að þeir velji barni sínu íslenskt nafn sé meira íþyngjandi en ýmsar aðrar kröfur sem samfélagið gerir til foreldra um að mennta börnin, næra og sinna heilsufari þeirra. Ekki verði heldur séð að íslensk tunga sé minna virði en allir þessir þættir barnauppeldis sem samfélagið áskili sér rétt til að skipta sér af.

„Þvert á móti er brýnt að Alþingi og stjórnvöld styðji og efli íslenska tungu með öllum tiltækum leiðum. Að afnema skyndilega ákvæði um að íslensk mannanöfn eigi að vera á íslensku væri algjörlega öndvert því markmiði. Hið sérstaka íslenska mannanafnakerfi skiptir miklu máli fyrir tungumálið. Einnig má minna á að íslenska er tungumál talað af fáum og býr við mikla erlenda áreitni, nú sem aldrei fyrr. Það væri sorglegt ef Alþingi sneri baki við íslenskri mannanafnahefð þegar íslenska á undir högg að sækja.“

Ármann segir að lokum að hægt sé að endurskoða lög um mannanöfn og færa til nútímans en sýna um leið umhyggju fyrir tungumálinu. „Full ástæða er til að hvetja Alþingi til að endurskoða núgildandi lög með tilliti til ýmissa þátta sem raktir eru í frumvarpinu en á hinn bóginn verður að sýna varkárni þegar kemur að málefnum þjóðtungunnar og fjarlægja hana ekki úr mannanafnalögum eins og hvern annan óþarfa.“

mbl.is