Máli vegna skattalagabrots vísað frá

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá máli ákæruvaldsins á hendur karlmanni fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 2007 og 2008, en samkvæmt ákæru taldi maðurinn ekki fram fjármagnstekjur upp á rúmlega 110 milljónir króna vegna þess tímabils.

Fjármagnstekjurnar voru tilkomnar vegna uppgjörs á 44 framvirkum gjaldmiðlasamningum við Glitni banka hf. sem skattskyldar voru samkvæmt lögum um tekjuskatt samkvæmt ákærunni. Þannig hafi maðurinn komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð rúmlega 11 milljónum króna. Verjandi mannsins fór fram á frávísun.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að við rekstur annars vegar máls ákæruvaldsins á hendur manninum og hins vegar rannsóknar skattaayfirvalda hafi verið farið á svig við meðalhóf sem krafa sé gerð um að gætt sé við rekstur tveggja sakamála samkvæmt ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu eins og þau hafi verið túlkuð af dómstólum.

Fyrir vikið hafi maðurinn verið settur í óhæfilega óvissu um réttarstöðu sína enda hafi óþarfa tafir orðið á öllum stigum málarekstursins sem honum yrði ekki kennt um. Engar skýringar hafi verið gefnar á þeirri töf. Enn gæti talsverður tími liðið þar til endanlegur dómur félli í máli hans. Fyrir vikið hafi rekstur málanna tveggja farið fram úr því sem góðu hófi gegni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert