„Hvað með karlmennina?“

„Í hugmyndum okkar um karlmennsku og kvenleika vitum við „hvað …
„Í hugmyndum okkar um karlmennsku og kvenleika vitum við „hvað má“ og „hvað ekki“ en hvernig vitum við þetta?“ segir Ásta Jóhannsdóttir doktorsnemi í félagsfræði við HÍ.

„Ég tek þessu fagnandi. Ég hef beðið spennt eftir því að karlar taki sjálfir þessa þörfu umræðu, að þeir tækli þessar skaðlegu karlmennsku hugmyndir. Konur geta ekki borið ábyrgð á byltingu karla um karlmennsku,” segir Ásta Jóhannsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands, um átakið á samfélagsmiðlum #karlmennskan sem snýr að staðalímynd karlmanna.

Ásta bendir á að oft þegar baráttumál kvenna spretta upp eins og #freethenipple, #metoo eða umræðan um femínisma eða hreinlega jafnréttismál koma upp þá er gjarnan spurt: „Hvað með karlmennina?“ Þar af leiðandi sé gott að fá fram þeirra sjónarmið því öll umræða um jafnréttismál snertir bæði kyn.

Þegar bornar eru saman í fljótu bragði þessi bylting og kvennabyltingarnar undanfarið er samstaða kvenna áberandi í byltingum kvenna ólíkt þessari þar sem karlmenn virðast ekki allir sammála, að sögn Ástu. „Hvaða hljómgrunn þetta mun hljóta meðal karla á eftir að koma í ljós,“ segir Ásta og vísar til þess að stutt er síðan karlmenn fóru að birta þessar reynslusögur á samfélagsmiðlum.

„kannski eru þetta bara örfá tröll sem þurfa knús

Þrátt fyrir fjölmargar lýsingar karlmanna á eigin upplifun á karlmennskunni hafa þegar nokkur „nettröll“ tjáð sig um umræðuna á neikvæðan hátt. Athugasemdir á borð við: „Hættið þessu væli og verið alvöru karlmenn“ hafa skotið upp kollinum. „kannski eru þetta bara örfá tröll sem þurfa knús, og flestir karlar taki þessu fagnandi. Hvort sem þeir geri það upphátt eða í hljóði,“ segir Ásta. 

„Þá fær maður á tilfinninguna að sumir karlmenn upplifi þetta sem árás á sig eða hugmyndir sínar um karlmennsku,” segir Ásta. Hún bendir á að þessi gagnrýni sé sambærileg upplifun sumra karlmanna á umræðu um femínisma og ofbeldi gegn konum. Þeir taki þeirri umræðu eins og árás á sjálfan sig. Margar konur hafa einnig tjáð sig um #karlmennskan á samfélagsmiðlum og stutt við framtakið. Munurinn á þessu átaki og svo kannski #metoo, er að í #metoo var spjótum gjarnan beint að hegðun karla og samskiptum kynjanna.

Konur skaðst líka af eitruðum karlmennsku hugmyndum

„Þarna er verið að ráðast á ákveðnar hugmyndir en ekki verið að saka konur um neitt og því er óþarfi fyrir þær að fara í vörn. Konur hafa nefnilega líka skaðast af eitruðum karlmennsku hugmyndum. Þær græða á því að slíkar hugmyndir hverfi,” segir Ásta.  

Hún segir áhugavert að sjá að í mörgum sögunum rifja strákarnir upp sögur úr æsku þar sem þeim var innrætt að gráta ekki. „Fullorðnum karlmanni er ekki bannað að gráta. Það er nóg að segja nokkrum sinnum við barn eða ungling að gráta ekki þá veistu þetta bara,“ segir Ásta. 

„Í hugmyndum okkar um karlmennsku og kvenleika vitum við „hvað má“ og „hvað ekki“ en hvernig vitum við þetta?“ segir Ásta. Í þessu samhengi segir hún að það sé ekki endilega hægt að benda á eitthvað eitt heldur er þetta líka samofið menningunni.  

Ásta bendir á að þetta sé ekki fyrsta átakið hjá körlum þar sem þeir stíga fram og vísar til dæmis í átakið allirgráta og vonandi ekki síðasta.

Hér fyrir neðan eru nokkrar Twitter-færslur #karlmennskan 








mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert